Aðstandendur Jóns Þrastar Jónssonar, sem hvarf sporlaust á Írlandi nýverið, biðla til spámiðla og sjáenda að hafa ekki samband og lýsa því hvar þar telji Jón niðurkominn. Þetta kemur fram í færslu sem aðstandendur birta á Facebook.
Af yfirlýsingunni að dæma virðast spámiðlar herja á fjölskylduna með skilaboðum. „Við höfum fengið ótal skilaboð frá fólki sem segist vera spámiðlar eða sjáendur. Fólkið segist hafa mikilvægar upplýsingar um hvar Jón sé niðurkominn. Því lengra sem líður því fleiri slík skilaboð fáum við og þau vísa öll í mismunandi áttir,“ segir í yfirlýsingunni.
Fjölskylda Jóns segir að skilaboð sem þessi séu mjög særandi. „Ef þú ert miðill eða sjáandi og telur þig búa yfir mikilvægum upplýsingum um Jón sem þú fréttir frá anda eða þú fékkst hugljómun um, þá biðjum við þig í einlægni að hafa EKKI samband eða biðja aðra um að hafa samband við okkur fyrir þína hönd. Við virðum trú ykkar og lífskoðun, en þið verðið að skilja hversu særandi það er að fá slík skilaboð á nokkra daga fresti frá fólki sem telur að ástkær bróðir okkar sé fastur undir hnullung í námu,“ segir í yfirlýsingunni.
https://www.facebook.com/jonjonssonmissing/posts/376057492992443