Kona á Vesturlandi var sýknuð á dögunum af ákæru um að hafa svikið fé af dóttur sinni. Dóttir hennar hafði kært hana til lögreglu vegna meintra fjársvika. Hélt dóttirin því fram að móðir hennar hefði með sviksamlegum hætti haft samband við bankann og villt á sér heimildir.
Dóttirin mætti til lögreglu og kærði móður sína fyrir fjárdrátt. Hún sagði að móðir hennar hefði hringt í bankann þar sem dóttirin hafði reikning, og fengið 150 þúsund krónur millifærðar af reikningi dóttur sinnar yfir á sinn eigin. Þetta hafi henni tekist með því að þykjast vera sín eigin dóttir í símanum og með því að segja lykilorð reiknings, sem hún vissi þar sem hún hefði áður verið prókúruhafi á reikningi dóttur sinnar.
Móðirin neitaði sök. Fyrir dómi var lögð fram hljóðupptaka. Mæðgunum kom ekki saman um hvaða rödd mætti heyra á upptökunni. Dóttirin hélt því fram að röddin tilheyrði móður hennar á meðan móðirin hélt hinu gagnstæða fram. Aðspurð sagði móðirin að hún og dóttir hennar hefðu margoft lagt inn á hvor aðra, enda hefðu þær verið nánar áður fyrr. Móðirin vildi hins vegar meina að hún hefði borgað dóttur sinni til baka, á meðan dóttirin kannaðist ekki við það.
Dómari gagnrýndi að lögregla hefði ekki rannsakað úr hvaða símanúmeri hefði verið hringt í bankann, en þar sem þær upplýsingar skorti væri ekki nægar sannanir í málinu til að hægt væri að sakfella móðurina fyrir fjársvik.
„Ekkert liggur hins vegar fyrir um það í gögnum málsins að rannsakað hafi verið af lögreglu úr hvaða símanúmeri hafi verið hringt þegar óskað var eftir millifærslunni. Enda þótt ákærða hafi ekki gefið neinar trúverðugar skýringar á því af hverju dóttir hennar gæti hafa verið að millifæra umrædda fjárhæð inn á reikning hennar, og að framburður brotaþola sé í sjálfu sér trúverðugur um að móðir hennar hafi sjálf átt þar hlut að máli, meðal annars með hliðsjón af því hvernig umræddu símtali vindur fram, telst sá framburður hennar þó ekki studdur slíkum gögnum að nægileg sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, teljist fram komin um að ákærða hafi verið þar að verki. Verður ákærða því sýknuð af þessum lið ákærunnar.“
Ekki þótti því sannað að móðirin hefði gerst sek um fjársvik. Hún var hins vegar sakfelld fyrir ölvunarakstur. Við ákvörðun refsingar er tekið fram að hún hafi árið 2017 verið sakfelld fyrir peningaþvætti og stórfellt fíkniefnalagabrot. Hún var svipt ökurétti í 33 mánuði og dæmd til að greiða 420 þúsund króna sekt í ríkissjóð.