Þorvaldur Þórarinsson er látinn en hann var einungis 49 ára. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi þann 26. mars síðastliðinn. Þorvaldur var einn af frumkvöðlunum hér á landi í frisbígolfi og varð sex sinnum Íslandsmeistari í þeirri íþrótt.
Samtökin Frisbígolf á Ísland minnast hans í stöðufærslu á Facebook.
„Það var mikið áfall að fá fréttirnar að Þorvaldur Þórarinsson, Þorri, væri fallinn frá. Þó að veikindi hans hafi vakið áhyggjur hjá öllum sem hann þekktu trúði því enginn að þessi sterki Eyjamaður þyrfti að láta í minni pokann fyrir illvígum sjúkdómi. Þrátt fyrir að augljóst væri að ástand hans færi sífellt versnandi var samt alltaf til staðar bjartsýni hjá honum um að nú færi alveg að finnast lausn á hans málum,“ segir í stöðufærslunni.
Samtökin segja að Þorvaldur hafi verið nær ósigrandi í frisbígolfi.
„Þorvaldur kom eins og stormsveipur inn í frisbígolfheiminn hér á landi þegar hann fluttist aftur til Íslands árið 2004 en hann hafði þá kynnst frisbígolfinu í Danmörku þar sem hann hafði náð góðum tökum á íþróttinni svo athygli vakti. Á Íslandi varð hann nær ósigrandi og sex Íslandsmeistaratitlar auk ótal annarra verðlaun bera vitni um það. Þorri var góð fyrirmynd íþróttamanna með sinni þægilegu framkomu bæði við nýliða og keppinauta. Þessi mikla hógværð gerði hann að vinsælum meðspilara og margir nutu þess að spila með honum og læra,“ segir í stöðufærslunni.
Samtökin senda öllum vinum hans og vandamönnum innilegar samúðarkveðjur: „Nú er hann kominn á nýjan völl þar sem hann á eflaust eftir að láta diska fljúga á enn stærra sviði. Það verður mikill söknuður af þessum hógværa afreksmanni og góðar minningar lifa lengi hjá þeim sem til hans þekktu. Við sendum börnum, fjölskyldu og vinum innilegar samúðarkveðjur.“