Árshátíð Landsbankans fór fram í Laugardalshöllinni á laugardagskvöld og er óhætt að segja að þar hafi allir fundið eitthvað við sitt hæfi, að minnsta kosti hvað skemmtiatriði varðar.
Fréttablaðið fjallar um árshátíðina í dag. Þar segir að margir af þekktustu tónlistarmönnum Íslands hafi stigið á svið og leikið fyrir dansi og söng.
Skemmtikraftarnir Dóri DNA og Saga Garðarsdóttir voru veislustjórar og meðal þeirra tónlistarmanna sem komu fram voru Friðrik Dór, Jóhanna Guðrún, JóiPé og Króli, Magni Ásgeirsson, Beggi í Sóldögg, Magnús Þór Sigmundsson og Jóhann Helgason. Sjálfur Helgi Björns mætti svo einnig og lokaði kvöldinu.
Þá var karókíherbergi sett upp sem tónlistarkonan Þórunn Antonía Magnúsdóttir og plötusnúðurinn Dóra Júlía Agnarsdóttir sáu um.
„Þetta var rosaleg árshátíð,“ segir viðmælandi Fréttablaðsins sem vildi ekki láta nafn síns getið. Í fréttinni kemur fram að hátíðin hafi verið í boði starfsmannafélags Landsbankans en makar starfsmanna hafi þurft að kaupa sig inn.