NBC News fjallar um þetta en í fréttinni kemur fram að nemendurnir hafi sent Apple gríðarlegt magn iPhone-síma sem þeir sögðu að væru bilaðir. Það sem Apple vissi ekki – allavega ekki til að byrja með – var að símarnir voru ekki alvöru símar heldur býsna nákvæmar eftirlíkingar af iPhone. Sumsé, umbúðirnar voru flottar en pakkinn innihélt ekki neitt.
Lykillinn að þessu var að það var ekki hægt að kveikja á símunum. Virðast piltarnir hafa vitað að Apple myndi senda þeim nýja síma meðan hinir voru til skoðunar. Ekki komst upp um málið fyrr en Apple hafði sent piltunum 1.500 splunkunýja iPhone-síma.
Piltarnir eru sagðir hafa haft samverkamann í Kína sem sendi þeim eftirlíkingarnar. Þegar Apple sendi þeim svo nýja síma voru þeir sendir aftur til Kína þar sem þeir voru seldir á svörtum markaði.
Piltarnir sem um ræðir voru skiptinemar frá Kína og stunduðu þeir nám í Oregon. Að því er fram kemur í frétt NBC News segja piltarnir, Quan Jiang og Yangyang Zhou, að þeir hafi ekki haft hugmynd um að símarnir sem þeir sendu til viðgerða væru ekki alvöru. Saksóknarar hafa ekki keypt þá skýringu og telja að þeir hafi allan tímann vitað hvað þeir voru að gera. Piltarnir gætu átt fangelsisdóm yfir höfði sér verði þeir fundnir sekir.