Ísak Rúnarsson, sérfræðingur hjá Viðskiptaráði Íslands, gefur lítið fyrir málflutning Gunnars Smára Egilssonar um hátt verð á pitsum á Íslandi. Gunnar Smári bar saman verð á Margarita pitsu í nokkrum löndum og sagði Ísland koma hörmulega út í samanburðinum. Ísak segir framsetningu Gunnars Smára vera villandi og að hann beiti blekkingum. Ísak segir meðal annars að verðið sem Gunnar Smári setur á íslensku margarituna sé rangt því hann taki ekki inn í myndina öll tilboðin sem eru í gangi. Niðurstaðan á samanburði Ísaks er sú að íslenska margaritan sé ódýrari en sú norska:
„Nú er Gunnari Smára Egilssyni heitt í hamsi vegna þess hvað það kostar að kaupa pizzu á Íslandi. Sem Pizza unnandi hef ég ekki tekið eftir því að Domino‘s sé dýrara hérlendis en annarsstaðar og frekar að það sé í hina áttina. Stutt ferð inn á vef Domino‘s í Noregi og á Íslandi sýnir glögglega að Gunnar Smári nýtir sér bæði hálfsannleika og fer með rangfærslur.
Í fyrsta lagi, segir Gunnar Smári að það kosti 2.340 krónur að kaupa sér margarita pizzu hjá Domino‘s á Íslandi. Það er rangt, vegna þess að Domino‘s býður tilboð, alla daga allan sólarhringinn, þar sem allar pizzur með tveimur áleggstegundum eða færri fást á 1.840 krónur, sem er fimm hundruð krónum ódýrara en Gunnar Smári staðhæfir. Ekkert samsvarandi tilboð virðist vera að finna hjá Domino‘s í Noregi.
Í Noregi fæst margarita á 119 norskar eða sem nemur 1.684 krónum sem er vissulega ódýrara en á Íslandi en ef bornar eru saman pepperoni pizzur þá kostar hin íslenska 1.840 en hin norska 2.109 krónur og íslenska pizzan því orðin ódýrari.
Í öðru lagi vill svo skemmtilega til að það er svokölluð „Megavika“ í gangi í Noregi þessa vikuna. Þar er auglýst að allar pizzur af matseðli fáist fyrir 149 krónur norskar eða sem nemur 2.109 krónum íslenskum á gengi dagsins í dag. Síðast þegar „Megavika“ var haldin á Íslandi var boðið upp á allar pizzur af matseðli á 1.390 krónur. Aftur er samanburðurinn orðinn Íslandi í hag hér og norska Megavikupizzan heilu 51% dýrari en hin íslenska.
Ef svo borið er saman almennt verð á ódýrum veitingastöðum milli þessara tveggja landa á síðunni Numbeo má sjá að máltíðin á Íslandi kostar því samkvæmt um 2.400 krónur en 2.537 krónur í Noregi. Og Noregur því aftur dýrari.
Gunnar Smári notar svo þessa afbökun sína til þess að sýna fram á að það sé ekki fyrst og fremst launakostnaður sem skýri mismunandi verðlag milli landa. Þegar rassvasatölfræði Gunnars Smára sleppir og málin eru betur skoðuð kemur í ljós að verðlag er hátt þar sem laun eru há og velferð mikil.“