Formenn þriggja íþróttafélaga lýsa yfir stuðningi sínum við töllögu borgarstjórnar um stuðning við rafíþróttir. Tillagan lýtur að því að borgin muni styðja íþróttafélög við að koma á fót rafíþróttadeildum innan félaganna með það að markmiði að koma í veg fyrir félagslega einangrun og auka félagsfærni barna og ungmenna.
„Þátttaka barna og ungmenna í íþróttastarfi hefur mikið forvarnargildi og hefur mjög jákvæð áhrif á félagsfærni barna, ekki síst til framtíðar litið. Rannsóknir hafa ítrekað sýnt fram á þessi jákvæðu tengsl. Það er nauðsynlegt að börn og ungmenni fái þjálfun í félagsfærni enda getur slík færni hjálpað þeim á öllum stigum lífsins, bæði í leik og starfi.
Við undirritaður viljum styðja þessa tillögu og teljum að þetta geti bæði aukið fjölbreytni íþróttastarfs, en einnig leitt til að börn og ungmenni, sem ekki taka þátt í starfi íþróttafélaga sjái tækifæri til að sinna sínum hugðarefnum innan þeirra raða.“
Undir stuðningsyfirlýsinguna skrifa Björn Einarsson, formaður Víkings, Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, formaður KR og Jón Karl Ólafsson, formaður Fjölnis.
Rafíþróttir er samheiti yfir skipulagða keppni í tölvuleikjum og eru oft iðkaðar þar sem margar tölvur eru settar upp í sama rými þar sem þátttakendur keppast um besta árangurinn. Seint á síðasta ári voru stofnuð Rafíþróttasamtök Íslands sem ætla er að halda með markvissum hætti utan um uppgang rafíþrótta hérlendis.
Tillagan var lögð fram af fulltrúum Sjálfstæðisflokksins á borgarstjórnarfundi í dag.