Lögreglan á Suðurnesjum stöðvaði nýlega ökumann vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna. Þessi sami ökumaður reyndist hafa ýmislegt fleira óhreint í pokahorninu.
Þetta kemur fram í skeyti frá lögreglu en þar segir að við leit í bifreið hans og á heimili, að fenginni heimild, hafi fundist kannabisefni og amfetamín. Maðurinn viðurkenndi fíkniefnaneyslu við skýrslutöku hjá lögreglu.
Annar ökumaður, sem einnig var tekinn úr umferð af sömu ástæðu, viðurkenndi neyslu á kókaíni, amfetamíni og MDMA þegar lögreglumenn ræddu við hann.
Þá voru á annan tug ökumanna kærðir fyrir of hraðan akstur og afskipti höfð af allmörgum ökumönnum vegna fíkniefna – eða ölvunaraksturs eða hvoru tveggja. Voru fáeinir þeirra ökuréttindalausir að auki.
Skráningarnúmer voru fjarlægð af fjórum bifreiðum sem voru óskoðaðar eða ótryggðar.