Írönskum systkinum verður refsað fyrir agabrot – Munu tefla í Reykjavíkurskákmótinu
Írönsk systkini, þátttakendur á GAMMA -Alþjóðlega Reykjavíkurskákmótinu í apríl, eiga á hættu að verða útilokuð frá landsliðsverkefnum sem og þátttöku í skákmótum heima fyrir ef eitthvað er að marka orð formanns íranska skáksambandsins, Mehrdad Pahlevanzadeh. Glæpur hinnar 18 ára gömlu Dorsa Derakhshani var sá að hún tefldi án „hijab“ eða slæðu í einni umferð Tradewise-mótsins á Gíbraltar, sem er eitt virtasta opna skákmót heims. Bróðir hennar, hinn 15 ára gamli Borna Derakhshani, var paraður gegn ísraelska stórmeistaranum Alexander Huzman og hans ófyrirgefanlegi glæpur var að mæta til leiks gegn stórmeistaranum.
Alþekkt er að skákmönnum frá tilteknum löndum í Mið-Austurlöndum er bannað að tefla við skákmenn frá Ísrael. Þeir mæta því yfirleitt ekki til leiks og gefa því skákina baráttulaust. Það gerði hinn ungi Borna hins vegar ekki og varð að lúta í gras eftir harða baráttu. Derahkshani-systkinin eru skráð til leiks á GAMMA – Alþjóðlega Reykjavíkurskákmótinu sem hefst þann 19. apríl í Hörpu. „Það á ekki að blanda keppnisíþróttum og pólitík saman með þessum hætti. Við erum stolt af því að taka á móti þessu unga baráttufólki,“ segir Gunnar Björnsson, forseti Skáksambands Íslands, sem skipuleggur mótið.
„Fyrsta skrefið verður að útiloka þau frá þátttöku í skákmótum í Íran auk þess sem þau munu ekki fá að tefla í nafni landsins. Þá verður þeim úthýst frá öllum landsliðsverkefnum,“ segir áðurnefndur Pahlevanzadeh í samtali við Fars-fréttastofuna í Íran vegna hinna meintu glæpa Derakhshani-systkinanna. Afleiðingarnar verða alvarlegar fyrir þau en afar erfitt er að taka þátt í alþjóðlegum mótum án stuðnings skáksambanda heima fyrir. Til þess að taka þátt í Asíu – og Heimsmeistaramótum – þá er eingöngu tekið við skráningum frá skáksambandi hvers lands og því er ljóst að möguleiki þeirra til að iðka list sína mun skerðast verulega.
Þessi hörðu viðbrögð gegn Derakhshani-systkinunum eru ekki eina hneykslið í alþjóðlega skáksamfélaginu í tengslum við harðlínustefnu Íran í blæjunotkun kvenna. Nú stendur yfir heimsmeistaramót kvenna í höfuðborginni Teheran. Mótið hófst þann 11. febrúar síðastliðinn og lýkur þann 3. mars. Alls var 64 af bestu skákkonum heims boðið til leiks og er teflt með útsláttarfyrirkomulagi. Ófrávíkjanlegt skilyrði var að skákkonurnar tefldu með slæðu yfir hári sínu.
Sú krafa, sem og sú staðreynd að Íran hafi fengið að halda mótið, olli gríðarlegum titringi í alþjóðlega skáksamfélaginu. Meðal annars neitaði kvennaskákmeistari Bandaríkjanna, Nazi Paikidze, að taka þátt í mótinu og sat því heima ásamt fjölmörgum öðrum skákkonum frá Vesturlöndum. Sagði sú bandaríska að hún gæti ekki hugsað sér að ljá kúgun kvenna stuðning sinn með því að gangast undir reglur mótshaldara og því vilji hún styðja íranskar konur með því að taka ekki þátt. Málið vakti athygli stærstu fjölmiðla heims og í viðtali við New York Times stigu íranskar skákkonur fram og fordæmdu aðgerðir hinnar bandarísku. Sögðu þær að mótið myndi hvetja íranskar konur til dáða og á því þyrftu þær mjög að halda. Stuðningur ríkisins við skák gæfi þeim tækifæri til þess að ferðast til framandi landa og kynnast öðrum menningarheimum. „Framfarir í réttindum kvenna gerast skref fyrir skref og rétta leiðin er ekki sú að hundsa þennan viðburð. Það styrkir réttindi kvenna alls staðar þegar konur sýna snilli sína í tilteknum íþróttum. Þau fræ dreifa sér langt út fyrir íþróttina,“ sagði Jila Baniyaghoob.