112: „Það er aðstoð á leiðinni til þín“ – Dæmdur fyrir tilraun til manndráps – Kveðst saklaus
Hrafnkell Óli Hrafnkelsson var þann 31. janúar dæmdur í átta ára fangelsi fyrir tilraun til manndráps, frelsissviptingu, nauðgun og líkamsárás. Hrafnkell svipti konu á þrítugsaldri frelsi sínu í rúman einn og hálfan klukkutíma. Hrafnkell hefur undanfarið tjáð sig opinberlega um málið og kveðst saklaus.
Þann 24. júlí sendi konan skilaboð á Hrafnkel og óskaði honum til hamingju með afmælið. Hrafnkell reyndi að fá hana til að koma í bæinn þar sem hann var að skemmta sér með vinum sínum. Því neitaði konan þar sem hún var á leið í háttinn. Næst heyrði konan í Hrafnkeli klukkan 05.00 og óskaði hann eftir gistingu fyrir hann og vin sinn. Leyfði konan þeim að gista í sófanum en fór sjálf að sofa en vaknaði við það að þeir skriðu upp í rúm til hennar og reyndu að kyssa hana og káfuðu á henni. Vísaði konan mönnunum út en sagði að nokkrum mínútum síðar hefði Hrafnkell bankað og taldi konan að hann hefði gleymt símanum sínum. Aftur óskaði Hrafnkell eftir gistingu en nú fyrir sig einan og ákvað konan að leyfa manninum að gista. Þegar hann vildi stunda með henni kynlíf sagði hún það ekki í boði. Greindi konan frá því að Hrafnkell hefði káfað á henni og neitað að hætta. Hann hefði síðan nauðgað henni í rúminu, inni á baði og lamið höfði hennar ítrekað í vegg í sturtunni og sagt henni að stynja.
Klukkan 07.49.10 sendi konan skilaboð á Neyðarlínuna með heimilisfangi sínu og segir:
„Nauðgun og ofbeldi er í hættu.“
Klukkan 07.57.50 sendi 112 skilaboð:
„Það er aðstoð á leiðinni til þín.“
Á einum tímapunkti reyndi konan að kalla á hjálp og þegar hún opnaði útidyrnar segir hún Hrafnkel hafa tekið hana hálstaki og reynt að kyrkja hana. Var konan viss um að Hrafnkell ætlaði að drepa hana. Konan sagði við skýrslutöku að atburðarásin væri á reiki þar sem hún hefði í eitt skipti misst meðvitund.
Þegar lögregla kom á vettvang var ljóst að eitthvað hryllilegt hafði átt sér stað. Blóð var á gólfi og blóðkám á veggjum. Hrafnkell var í sófa í stofunni og var handtekinn. Bæði Hrafnkell og konan voru með áverka. Konan með skurð og rauðþrútinn háls. Sagði hún að Hrafnkell hefði reynt að drepa hana. Hrafnkell var sjálfur með skurð og sakaði konuna um að hafa ráðist á hann að fyrra bragði. Blóðslettur voru á gólfi sem voru klesstar líkt og einhver hefði legið á gólfinu og hreyft sig. Þá hafi verið blóðug munnvatnssletta á vegg í forstofu. Í vaski fannst IKEA-hnífur með blóði á. Á gólfi í svefnherbergi var hár og blóðslettur.
112: „Það er aðstoð á leiðinni til þín“
Konan sagði Hrafnkel að hafa kýlt hana margsinnis í andlitið, höfuð og víðs vegar um líkamann. Sagði hún að Hrafnkell hefði einnig þrýst hnífi að hálsi hennar og hótað að stinga hana með hnífnum ef hún gæfi frá sér hljóð. Þá sagði konan að Hrafnkell hefði skorið af henni hár með hnífnum og einnig skorið hana í hökuna, fjögurra sentimetra skurð sem þurfti að sauma.
Eftir árásina var konan með áverka víða um líkamann og einnig hafði sprungið í henni hljóðhimna.
Hjúkrunarfræðingur sagði konuna hafa verið í miklu uppnámi, grátandi og blóðuga og hún hefði endurtekið:
„Ég hélt hann myndi drepa mig, ég hélt ég myndi deyja.“
Hrafnkell mældist með töluvert áfengismagn í blóði, 1,18 prósent í blóði og 1,70 prósent í þvagi.
Hrafnkell sakaði konuna um árás og hann hefði ekkert til sakar unnið. Þau hefðu sofið saman með hennar samþykki og þau hefðu ákveðið að stunda harkalegt kynlíf. Réttarmeinafræðingur skoðaði myndir af áverkum á hálsi Hrafnkels og sagði þá vera dæmi um egghvassa áverka sem Hrafnkell hefði líklega veitt sér sjálfur. Jafnframt sagði réttarmeinafræðingurinn að áverkarnir á hálsi konunnar væru dæmigerðir fyrir kyrkingu með höndum. Blettablæðingar hefðu verið í slímhúð beggja augna og væru þeir dæmigerðir fyrir mikla æðastíflu sem verði við harkalega kyrkingu með höndum.
„Miðað við staðsetningu handanna á hálsinum sem og samfellu og afl sem beitt var þarf viðeigandi tímaramma til að svona áverkar verði. Í þessu máli er líklegt að [ konan] hafi verið kyrkt í allmargar sekúndur, allt að mínútu, jafnvel lengur.“
Læknir kom fyrir dóm og sagði að þrýstingur handa á hálsæðar geti orsakað sterk viðbrögð koktauga og leitt til hjartastopps.
Fyrr í vikunni birti Hrafnkell á netinu nokkurra mánaða gömul skrif þar sem hann kveðst vera saklaus og mynd af sér með skurð sem einn réttarmeinafræðingurinn telur að Hrafnkell hafi veitt sér sjálfur. Hrafnkell afplánar nú dóm sinn á Litla-Hrauni en þar mega fangar ekki vera á netinu. Samkvæmt heimildum DV er töluvert af netpungum í umferð í fangelsinu. Viðurlög við því er tölvubann og takmarkanir á heimsóknum. Hrafnkell heldur fram sakleysi sínu og hefur sagst ætla að áfrýja dómnum til Hæstaréttar. Í dómnum segir að talið sé hafið yfir allan skynsamlegan vafa að Hrafnkell hafi svipt konuna frelsi og beitt hana ofbeldi.
Þrír dómarar kváðu upp dóminn og var Hrafnkell dæmdur í átta ára fangelsi og skal greiða konunni 2.,5 milljónir í skaðabætur.