fbpx
Sunnudagur 05.maí 2024
Leiðari

Lífið getur verið bærilegt

Kristjón Kormákur Guðjónsson
Sunnudaginn 24. mars 2019 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ég var fimm ára þegar ég var tekinn af móður minni. Hún var ekki fær um að ala mig upp vegna veikinda. Hún glímdi við geðhvörf og alkóhólisminn eitraði huga hennar, svo stundum var ég í öðru sæti. Þrátt fyrir erfið veikindi var mamma oft góð. Við fórum í labbitúra, hún sagði mér sögur og einu sinni sagði hún: „Ef þú klippir af þér neglurnar og nærð að fylla heila krukku og setur þær hjá styttunni af Jóni Sigurðssyni, færðu allar þínar óskir uppfylltar.“ Svona var mamma, uppátækjasöm, fyndin, skemmtileg en líka mjög veik. Hún var líka ung og í sambúð með manni sem átti við áfengisvanda að stríða. Þó þau væru oft góð við hvort annað breyttust þau stundum í myrkraverur. Þá var fjandinn laus. Og ég sá hluti sem ekkert barn á að verða vitni að.

Einn daginn var amma Jóhanna mætt. Hún leiddi mig í burtu frá stóru rauðu húsi á Suðurgötu. Og allt í einu átti ég heima hjá afa og ömmu í Bolungarvík. Á sumrin voru þau á Dröngum. Það birti til en stundum saknaði ég mömmu.

Á sumrin var ég á Dröngum og Seljanesi. Afi og amma áttu fjórtán börn og ég varð fimmtánda barnið. Á Dröngum tíndum við stundum sprek í eldinn. Þá var sólin kannski að setjast og sólrákin náði upp í landsteina og krían var þarna á sveimi að kljúfa djúpið upp á við með síli í gogginum og amma sagði: „Ég hef aldrei drepið neina lifandi veru um ævina, nema flugu og það var óvart.“ Svona var hún amma mín góð. Hún hafði mjúkar hendur og hljómfagra rödd.

Amma las fyrir mig á hverju kvöldi þar til ég sofnaði. Hún færði mér kakó í rúmið. Þegar faðir minn hóf svo sambúð með fósturmóður minni var ég orðinn svo fordekraður að þegar mér var fengið það hlutverk að raða skónum og taka til í herberginu mínu strauk ég að heiman. Ef ég sullaði á matarborðið á Dröngum, uppstúf eða sel og bræður pabba skömmuðu mig, sagði amma: „Hann er nú örvhentur greyið.“

Afi minn, Kristinn frá Dröngum, var oft uppi í herbergi að lesa Íslendingasögurnar, hlusta á veðurfréttir eða flá sel niður á hlein eða spjalla við æðarkollurnar. Þegar við vorum á Dröngum var enginn tími. Við vöknuðum þegar við vorum búnir að sofa.

Hann sagði að það væru engin rök til fyrir því að menn ættu ekki að geta lifað í samfélagi nema að eiga margfalt á við aðra. Það væri ekkert sem réttlæti það. Og það er satt. Þegar við sátum síðan að spjalla mörgum árum síðar og hann var með krabbamein og að deyja, sagði hann að forvitnin væri farin og þess vegna væri þetta orðið gott. Svo bætti hann við: „Jæja, Kristjón minn. Nú er þetta orðið gott hjá okkur. Ég þarf að halda áfram að drepast.“ Svo kvöddumst við. Hann dó. Og svona var afi minn.

Og síðan líður tíminn. Lífið var bærilegt. Ég var í íþróttum, unglingalandsliði, stofnaði körfuboltalið þegar ég var 15 ára sem hefur spilað úrslitaleik í Laugardalshöll. Ég ætlaði að verða landsliðsmaður í knattspyrnu.

En síðan byrjaði ég að drekka áfengi. Þá drakk ég áfengi af sömu áfergju og mamma hafði gert. Ég var fljótur að týna sjálfum mér. Eftir tvö ár var ég á götunni og svaf í yfirgefnum húsum. Ég var beittur kynferðisofbeldi í eitt skipti. Það fyllti hausinn á mér af reiði. Og ég hætti að vera góður. Ég varð týndur. Allt snerist um næsta skammt. Í undirheimunum sá ég líka hluti sem enginn ætti að verða vitni að.

Ég reyndi að komast til baka en á endanum gafst ég upp. Ég sagði foreldrum mínum að ég ætlaði að verða glæpamaður og dópisti. Ég var þreyttur á að valda þeim vonbrigðum. Ég hafði dæmt sjálfan mig úr leik og trúði ekki á leiðina til baka.

En einn daginn tókst það, nokkrum árum síðar. Síðan þá hef ég eignast fallegustu börn í heimi, skrifað nokkrar bækur og fyrir tilviljun villtist ég inn í fjölmiðlaheiminn. Það var árið 2012 sem ég var ráðinn á Pressuna. Ég elskaði vinnuna. Ég var í vinnunni nánast allan sólarhringinn. Tveimur árum síðar var ég orðinn ritstjóri. Tveimur árum eftir það var mér boðið að verða ritstjóri DV þar sem ég starfaði með snillingnum Kolbrúnu Bergþórsdóttur. Ári seinna var ég ráðinn aðalritstjóri.

Það var ótrúlegur heiður að fá að gegna þessari stöðu. Ennþá meiri heiður að fá að vinna með blaðamönnum sem ég hafði borið mikla virðingu fyrir. Þá fylltist ég ánægju við það að kenna öðrum blaðamönnum.

Fjölmiðlar hafa breyst á þessum tíma eins og gengur. Fjölmiðlaumhverfið er dapurt og ósanngjarnt þar sem einn miðill fær allt upp í hendurnar. Og á ritstjórnum fækkar fólki. Það er alltaf erfitt að sjá góða vini og félaga fara. Það kemur maður í manns stað. En stundum kemur enginn í staðinn. Við eigum marga góða blaðamenn og sýn fólks á stéttina er oft meingölluð. Það leggur enginn á sig margra ára nám til að fá ömurlegar tekjur með það að markmiði einu að safna ip-tölum.

Ég er í blaðamennsku til að segja fréttir. Til að segja sögur. DV bar Braggamálið á herðum sér og Klaustursmálið ásamt Stundinni. Fleiri mál væri hægt að tína til. Fjölmiðlar gegna lykilhlutverki í samfélaginu. Þeir eru fjórða valdið. Grundvöllur fyrir lýðræðislegri umræðu.

En síðan er líka mikilvægt að segja sögur. Sögur fólks. Sögur af sorg og sigrum. Og þess vegna kem ég aðeins inn á mína sögu hér. Ég hef skrifað um mín erfiðustu augnablik í pistlum og eins farið í viðtöl. Ég segi mína sögu í þeirri von að einhver sem hefur villst af leið fái aftur trú á sjálfan sig eða sjái möguleika á að eiga bærilegt líf.

Og þess vegna segi ég það enn og aftur: Lífið getur verið bærilegt. Og eins og afi sagði, þá skiptir forvitnin máli. Á meðan hún er enn til staðar þá er engin ástæða til að leggjast upp í rúm og halda áfram að drepast.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 3 klukkutímum

Albert er veikur og getur ekki tekið þátt

Albert er veikur og getur ekki tekið þátt
Eyjan
Fyrir 3 klukkutímum

Hannes Hólmsteinn sakar Gunnar Smára um að vera Steinunn Ólína – „Þú ert svo illa að þér og ólæs“

Hannes Hólmsteinn sakar Gunnar Smára um að vera Steinunn Ólína – „Þú ert svo illa að þér og ólæs“
Fréttir
Fyrir 5 klukkutímum

Lesendur hafa talað: Þetta voru sigurvegarar kappræðnanna

Lesendur hafa talað: Þetta voru sigurvegarar kappræðnanna
433Sport
Fyrir 5 klukkutímum

Messi lagði upp fimm mörk og skoraði eitt – Suarez með þrennu

Messi lagði upp fimm mörk og skoraði eitt – Suarez með þrennu
Pressan
Fyrir 17 klukkutímum

Kjúklingur og kókaín

Kjúklingur og kókaín
433Sport
Fyrir 17 klukkutímum

Gagnrýnir vinnubrögð Liverpool: Bjóst við að fá miklu meiri stuðning – ,,Var gríðarlega erfitt“

Gagnrýnir vinnubrögð Liverpool: Bjóst við að fá miklu meiri stuðning – ,,Var gríðarlega erfitt“