fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024
Fréttir

Ótrúlegar uppákomur í þingsal

Auður Ösp
Sunnudaginn 17. mars 2019 13:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Beinar útsendingar frá Alþingi eru kannski ekki vinsælasta sjónvarpsefnið. En í þingsalnum getur ýmislegt átt sér stað, ekki síst þegar umdeild mál eru á dagskrá og ræðumönnum hitnar í hamsi. Vanhugsuð orð eru látin falla, tilfinningar bera fólk ofurliði og sumir feta ótroðnar slóðir til fá athygli og stuðning annarra þingmanna. DV tók saman nokkrar eftirminnilegar uppákomur sem hafa átt sér stað innan veggja Alþingishússins.

Afturendaspark Árna Johnsen

Dag einn í nóvember 1995 hélt Össur Skarphéðinsson, þáverandi þingmaður Alþýðuflokksins, ræðu á þinginu sem var öðrum þingmanni, Árna Johnsen, ekki að skapi. Össur hafði orð á því í lokin að hann teldi sig heyra háttvirtan þingmann Árna Johnsen hrista höfuðið yfir því sem fram fór.

Árni brást illa við þessum ummælum Össurar og elti hann fram á gang þinghússins þar sem hann greip í eyra hans og heimtaði að tala við hann. Þegar Össur ætlaði að ganga í burtu tók Árni sig til og sparkaði hressilega í afturendann á honum þannig að Össur féll niður stiga og hlaut minniháttar áverka.

Össur var síðar meir spurður hvort hann ætlaði að bregðast við þessari framkomu Árna en svaraði þá að hann „vildi ekki elta ólar við mann með greindarvísitölu á við íslenska sauðkind.“

Á seinasta ári ritaði Össur pistil og rifjaði upp þetta atvik.

Ljósmynd: DV/Sigtryggur Ari

„Sjálfur fór ég eitt sinn yfir æskileg mörk kaldhæðninnar í vondri ræðu. Á eftir var mér sparkað í bókstaflegri merkingu niður stigann í Alþingishúsinu. Í minningu þessa atburðar, sem líklega voru síðustu blóðugu átökin á Alþingi, gáfu Vestmanneyingar mér síðar risastórar nærbuxur með tröllstóru fótspori. Ég lifði þetta af, og einhvers staðar á ég nærbuxurnar góðu.“

Grein DV í nóvember 1995. Ljósmynd/Timarit.is

Jón Kristjánsson alþingismaður orti eftirfarandi vísu:

Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi

Það fékk að reyna um helgina Össur minn.

Fallinn er hann með fótspor Árna á rassi

Og farðann af Jóhönnu rauðan á hægri kinn.

 Gunga og drusla

„Ég hlýt að líta svo á og það skal þá standa að Davíð Oddsson sé slík gunga og drusla að hann þori ekki að koma hér og eiga orðastað við mig.“

Þessi orð lét Stein­grím­ur J. Sig­fús­son, formaður Vinstri­ hreyf­ing­ar­inn­ar – græns fram­boðs, falla á Alþingi í maí 2014, þegar fram fóru umræður um hið umdeilda fjölmiðlafrumvarp.

Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis DV/Hanna

Ástæðan fyrir þessum ummælum var sú að Steingrími gramdist að þáverandi forsætisráðherra, Davíð Oddsson, skyldi ekki vera viðstadd­ur umræðuna. Steingrímur hafði ítrekað óskað eftir því við forseta Alþingis að Davíð kæmi í þingsalinn og svaraði spurningum sem tengdust fjölmiðlafrumvarpinu.

Á öðrum stað í ræðunni sagðist Steingrímur hafa séð Davíð „bráðfrísk­an á vappi í kring­um sal­inn áðan“ og bætti við: „Hann get­ur ekki haft nein lög­mæt for­föll.“

Með barn á brjósti í ræðustólnum

Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður allsherjar- og menntamálanefndar, braut blað í þingsögunni þann 16. október 2016. Þann dag mætti hún með rúmlega mánaðargamla dóttur sína í ræðustól Alþingis og gaf henni brjóst á sama tíma og hún kvaddi sér hljóðs í atkvæðagreiðslu um útlendingalögin.

Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður VG, hafði boðist til að gæta stúlkunnar á meðan Unnur flutti ræðuna en sú litla mun hafa tekið því illa og því varð úr að hún fylgdi móður sinni í ræðustólinn.

Unnur Brá gefur brjóst í ræðustólnum. Ljósmynd/Youtube

Atvikið vakti heilmikla lukku líkt og sjá mátti á ummælum sem birtust á samfélagsmiðlum og í athugasemdakerfum fréttamiðla.

Þingmenn og starfsfólk þingsins kippti sér að vísu lítið upp við atburðinn, þótt óvenjulegur hafi verið.

Buxnalaus í ræðustól

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er líklega sá eini sem haldið hefur ræðu á Alþingi Íslendinga án þess að vera í buxum. Á aðdraganda prófkjörs Sjálfstæðisflokksins árið 2016 rifjaði Guðlaugur upp þetta spaugilega atvik sem átti sér stað veturinn áður.

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra

„Þetta tókst, það tók enginn eftir þessu þegar ég fór í ræðustól. Svo bara fylltist þingsalurinn og ég náttúrulega hugsaði: „Loksins er þetta fólk að hlusta á það sem ég er að segja um Íbúðalánasjóð,“

sagði Guðlaugur en rétt áður en hann átti að flytja ræðuna tókst honum að rífa buxurnar sínar. Buxurnar voru hreinlega í tætlum og enginn tími til þess að bjarga málunum. Guðlaugur lét því slag standa og skellti sér í ræðustólinn buxnalaus. Fáir voru í þingsalnum og taldi Guðlaugur sig því nokkuð öruggan. Annað kom þó á daginn; þingsalurinn fylltist af fólki og taldi Guðlaugur að loksins myndi hann ná til eyrna fólks með ræðu sinni um Íbúðalánasjóð.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir kom því næst upp að Guðlaugi og skildi hann ekkert hvers vegna á því stóð.

„Þá var það þannig að planið gekk alveg upp en ég hreyfi mig helst til mikið þannig að ég gekk til og frá sem gerði það að verkum að þingheimur vissi nákvæmlega í hvaða nærbuxum ég var, og var bara að skemmta sér með þetta! Ragnheiður skýldi mér, svo enginn ljósmyndari myndi ná mynd af þessu þegar ég gekk út úr þingsalnum.“

Gengu framhjá með spjöld

Þann 29. nóvember árið 2012 varð sérkennileg uppákoma í þingsal Alþingis. Fram fóru umræður um fjárlög og var Illugi Gunnarsson þriðji ræðumaður fundarins. Á meðan Illugi hélt ræðu sína  gengu tveir þingmenn, þeir Björn Valur Gíslason og Lúðvík Geirsson, framhjá honum og héldu á spjöldum með áletruninni „Málþóf.“

Illugi gerði hlé á ræðu sinni og spurði forseta Alþingis, Árna Þór Sigurðsson, hvort hann ætlaði að láta óátalda þessa framkomu og hegðan þingmanna? Kom þá í ljós að Árni Þór hafði ekki orðið var við þennan gjörning Björn Vals og Lúðvíks.

„Forseti er ekki alveg með það á hreinu hvað háttvirtur þingmaður á við,“ var svar hans til Illuga. Brást Illugi við með því að halda ræðu sinni áfram en sagði þingmennina báða hafa orðið sér til minnkunar „þó svo að hann ætti svosem von á svona framkomu frá öðrum þeirra.“

Hlé var gert á þingfundinum og síðan stigu Björn Valur og Lúðvík í ræðustól og báðust afsökunar á þessari framkomu. Var það skoðun þeirra að minnihlutinn hefði rofið samkomulag um stuttan umræðutíma um fjárlögin í annarri umræðu.

Ásta Ragnheiður og Ragnheiður Ásta

Fyrrverandi forseta Alþingis, Halldóri Blöndal, varð vandræðalega á í messunni í utandagskrárumræðum á þinginu í nóvember 1997. Halldór beindi orðum sínum úr ræðustól til Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur, þingkonu Samfylkingarinnar, en mundi ekki nafn hennar og kallaði hana ítrekað Ragnheiði Ástu Stefánsdóttur. Uppskar hann við það mikil hlátrasköll en þegar honum var bent á rétt nafn Ástu Ragnheiðar svaraði hann því til að honum „þætti þessi útgáfa nafnsins fallegri.“ Halldór tókst síðan að mismæla sig í enn eitt skiptið eftir þetta þegar hann sagði „Ásta Ragnheiður Pétursdóttir.“

Í samtali við DV daginn eftir sagði Halldór að nafnavíxlunin hefði ekki verið af ráðnum hug. Þetta hefði verið mismæli en ekki dónaskapur af hans hálfu. „Ég get ekki gefið neina skýringu á þessu aðra en þá að það eru tvær þjóðkunnar konur sem bera þessi nöfn, og hin er Ragnheiður Ásta Pétursdóttir,“ sagði Halldór og átti þar við útvarpsþuluna landsþekktu.

„Þá er ég bara að þjófstarta hérna“

Dag einn byrjun nóvember 2014 steig Þor­steinn Sæ­munds­son, þingmaður Fram­sókn­ar­flokks­ins, í ræðustól Alþingis og vakti máls á lagafrumvarpi um vist­hönn­un vöru sem not­ar orku. Allt annað mál var hins vegar til umræðu þá stundina.

Þorsteinn Sæmundsson, alþingismaður

Forseta Alþingis, Ein­ari K. Guðfinnss­yni, var fljótlega ljóst að Þorsteinn væri að ræða um rangt mál. Hann rauk því á fætur, barði ítrekað í bjölluna og reyndi að koma Þorsteini í skilning um að umrætt lagafrumvarp væri ekki á dagskrá.

Það breytti þó litlu þar sem að Þorsteinn hélt ótrauður áfram að tala um frumvarpið. Á meðan stóð Einar fyrir aftan, barði á bjölluna í sífellu og reyndi að ná til Þorsteins með því að kalla: „Hátt­virt­ur þingmaður! Hátt­virt­ur þingmaður! Hátt­virt­ur þingmaður!“

Hlátrasköll þingmanna bárust úr salnum og loks kallaði Einar: „Við erum hér að taka af­stöðu til beiðni um skýrslu um út­flutn­ing á orku um sæ­streng!“

Svaraði þá Þorsteinn: „Af­sakið. Þá er ég bara að þjófst­arta hérna.“

Brast í söng í miðri ræðu

Í apríl 2009 hélt Árni Johnsen, þáverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, ræðu á Alþingi um íslenska kvikmyndagerð en tilefnið var frumvarp um breytingar á lögum varðandi tímabundnar endurgreiðslur til kvikmyndagerðar.

„Hugsum okkur til að mynda Skagafjörðinn með kvöldsettu sólsetri. Þar sem í Drangey blundar fugl við brún og blóðrauð sólin tinar og kvikmynd um þetta dýrlega svæði gæti byrjað með þessu erindi hérna,“ sagði Árni meðal annars.

Hann bætti síðan við: „Með leyfi, forseti“ og brast því næst í söng. Tók hann fyrsta erindið í Laugardagskveld við texta Magnúsar Ásgeirssonar.

Það var kátt hérna’ um laugardagskvöldið á Gili
það kvað við öll sveitin af dansi og spili
það var hó! það var hopp! það var hæ!
Hann Hofs-Láki, æringi austan af landi
þar úti í túnfæti dragspilið þandi
hæ, dúdelí! dúdelí! dæ!

Það fer ekki mörgum sögum af viðbrögðum annarra þingmanna en þegar Árni hafði lokið flutningum bætti hann við: „Þetta yrði ekki leiðinleg kvikmynd, sem hæfist á þessu erindi.“

Í samtali við DV daginn eftir sagði Árni að þetta væri í fyrsta skipti í sögu lýðveldisins sem alþingismaður tæki lagið í ræðustól. Þegar hann var spurður um viðbrögð annarra þingmanna svaraði hann:

„Ég held að þeir hafi haft gaman af þessu og það voru áhorfendur sem hringdu inn og grétu af gleði.“

Björt og kjólinn

Björt Ólafsdóttir
Eins og hátískufyrirsæta í Mílanó.

Það olli töluverðu fjaðrafoki sumarið 2017 þegar Björt Ólafsdóttir, þáverandi umhverfisráðherra, sat fyrir á ljósmynd sem tekin var í þingsal Alþingis og síðan notuð í auglýsingaskyni fyrir breska tískumerkið Galvan London. Sólveig Káradóttir, listrænn stjórnandi Galvan, og Björt eru vinkonur til margra ára, og sátu fleiri vinkonur Sólveigar fyrir á auglýsingamyndum sem teknar voru á Íslandi fyrir umrætt tískumerki.

Samkvæmt reglum Alþingis er óheimilt að taka myndir til einkanota inni í þingsalnum. Björt sagðist í fyrstu ekki hafa brotið neinar reglur Alþingis með myndatökunni þar sem að myndavélinni hefði eingöngu verið beint inn í þingsalinn og ljósmyndarinn staðið fyrir utan.  Hún baðst síðar afsökunar á þessu tiltæki og sagðist hafa sýnt dómgreindarleysi með því að „flögra um þingsalinn“.

Fékk aðsvif í miðri ræðu

Það brá mörgum þegar Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra fékk aðsvif í ræðustól Alþingis í mars 2007. Magnús var að mæla fyrir þingsályktunartillögu um jafnréttismál en þurfti að gera hlé á máli sínu og fara úr ræðustólnum.

Hann var studdur inn í hliðarherbergi og síðan fluttur á sjúkrahús til skoðunar. Talið var að hann hefði fengið blóðsykursfall. Síðar um daginn barst tilkynning frá ráðuneytinu þar sem fram kom að þarna hefði verið á ferð samspil flensu og langvarandi álags hjá Magnúsi.

Stilltu sér upp með húfur

Í febrúar síðastliðnum  varð sérstæð uppákoma á Alþingi þegar Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, hélt ræðu í tengslum við umræðu um fimm ára samgönguáætlun.

Tveir þingmenn Pírata, þau Björn Leví Gunnarsson og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, gengu að ræðustólnum á meðan Bergþór talaði, stilltu sér upp við hlið hans í stutta stund og gengu síðan burt. Bæði voru með húfu á höfði sem merktar voru „Fokk ofbeldi“ – átaki sem gengur út á að vekja athygli á ofbeldi gegn konum og stúlkum víða um heim.

Bergþór hélt ræðu sinni áfram þrátt fyrir þennan gjörning en Bergþór er einn þeirra þingmanna sem voru hvað mest áberandi í Klaustursupptökunum frægu. Var hann á þessum tíma nýkominn aftur til starfa eftir að hafa verið í leyfi vegna málsins. Vakti það óánægju margra þegar Bergþór og flokksbróðir hans Gunnar Bragi Sveinsson sneru aftur til starfa, og enn fremur voru margir ósáttir við að Bergþór væri áfram formaður samgöngunefndar Alþingis.

Í samtali við Vísi.is sagði Þórhildur að um hefði verið að ræða þögul mótmæli.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Sjáðu myndbandið: Sverrir Einar handtekinn og leiddur út í járnum í miðbænum

Sjáðu myndbandið: Sverrir Einar handtekinn og leiddur út í járnum í miðbænum
Fréttir
Í gær

Snorri og Patrik vekja hneykslun: Konan hugsi um börnin og karlinn um peningana – „Gömlukallaraus í ungum mönnum“

Snorri og Patrik vekja hneykslun: Konan hugsi um börnin og karlinn um peningana – „Gömlukallaraus í ungum mönnum“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Pálmatré raunhæft verkefni en aðeins eitt tré mun rísa

Pálmatré raunhæft verkefni en aðeins eitt tré mun rísa
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kári Hansen skilaði inn meðmælum til forseta Íslands rafrænt

Kári Hansen skilaði inn meðmælum til forseta Íslands rafrænt
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Reiði vegna skemmdarverks á Suðurgötu: Málið verður tilkynnt lögreglu – Sjáðu myndina

Reiði vegna skemmdarverks á Suðurgötu: Málið verður tilkynnt lögreglu – Sjáðu myndina
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Tveir Bretar hætt komnir á Íslandi: Grét þegar hann sagði frá slysinu – Vinur hans enn á spítala

Tveir Bretar hætt komnir á Íslandi: Grét þegar hann sagði frá slysinu – Vinur hans enn á spítala
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Helga Þórisdóttir búin að ná meðmælendum

Helga Þórisdóttir búin að ná meðmælendum