Þórunn Egilsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, hefur verið greind með brjóstakrabbamein. Hún segir frá þessu á Facebook. Fjöldi stjórnmálamanna senda henni baráttukveðjur.
„Kona fer í stríð. Svo háttar til að ég hef fengið stórt verkefni til að takast á við í lífinu. Ég hef greinst með brjóstakrabbamein. Það er þess eðlis að ég þarf að fara í harða meðferð gegn því. Þess vegna mun ég draga mig út úr þingstörfum og kalla inn varamann,“ segir Þórunn.
Hún segist þó staðráðin í að sigra þessa baráttu. „Ég óskaði ekki eftir þessu verkefni frekar en nokkur annar sem fær þetta tilboð í lífinu. En ég ætla að einhenda mér í verkið af öllum mínum mikla þunga. Ég hef aldrei farið baráttu til að tapa og hyggst ekki byrja á því núna. Bjartsýn, einbeitt, ákveðin og umvafin mínu fólki ætla ég að takast á við verkefnið,“ segir Þórunn.