Fyrir nokkrum dögum hjólaði maður á keppnishjóli niður Þorvald Ingvarsson lækni á þröngum göngustíg úti við Gróttu á Seltjarnarnesi. Hlaut Þorvaldur nokkur meiðsli af þessu en málið hefur verið kært til lögreglu. Þetta kom fram á vef Fréttablaðsins í gær.
Karl Pétur Jónsson, bæjarfulltrúi fyrir Viðreisn/Neslistann, staðfestir við DV að sá sem hjólaði á Þorvald hafi verið á 30 km hraða. Gögn úr Strava-kerfinu sýna að menn hjóla á þessum stað á allt að 60 km hraða sem hlýtur að skapa stórhættu á stíg sem er innan við 3 km breiður.
„En það stendur til að leggja breiðan hjólastíg til hliðar við þennan gamla göngustíg. Þá mega menn hjóla eins hratt og þeir vilja.Við erum með svona stíg meðfram Norðurströndinni. Það breytti miklu að fá hann. Helst ættu þessir stígar að vera upphitaðir, svo þeir nýttust allt árið,“ segir Karl Pétur.
Á næsta bæjarstjórnarfundi ætlar Karl Pétur að leggja fram tillögu um 15 km hámarkshraða á umræddum göngustíg.