Maður að nafni Reynir Ragnarsson var í fyrradag dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi fyrir margvísleg afbrot. Afbrotalistinn yfir stutt tímabil er langur og skrautlegur.
Þann 2. júní síðasta sumar stal Reynir þremur sjónvarpstækjum auk veggfestinga og marmaraplötu frá First Hotel í Hlíðasmára í Kópavogi. Um einum og hálfum mánuði síðar stal hann olíubrúsa í N1 við Ártúnshöfða. Þremur dögum eftir að hafa stolið olíubrúsanum fór Reynir í þjófnaðarleiðangur á Hótel Grím við Grímsbæ, Bústaðarvegi. Þar stal hann þremur símum, debetkorti og bíllyklum; hann ók síðan á brott í bíl sem lagt hafði verið fyrir framan hótelið.
Þá eru tilgreint þrjú tilvik á síðasta ári þar sem Reynir var tekinn við akstur á bíl undir áhrifum fíkniefna, amfetamíns, kókaíns, MDMA og fleiri lyfja.
Þá var Reynir sakfelldur fyrir allmörg fíkniefnabrot sem snerust um að hafa í vörslu sinni ólögleg efni.
Reynir var dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi en tveggja mánaða gæsluvarðhald dregst frá refsingunni. Töluvert af fíkniefnum í fórum hans var gert upptækt, amfetamín, kókaín, maríjúana og ecstacy töflur. Hann þarf að greiða sakarkostnað og málsvarnarlaun upp á rétt rúma milljón króna.