Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir segir að bóluefni gegn mislingum sé að klárast hér á landi en von sé á meira efni í lok vikunnar. Enn eru staðfest fjögur mislingasmit hér á landi en Þórólfur útilokar ekki að fleiri muni greinast.
Þetta kom fram í máli Þórólfs í viðtali við RÚV.
Þórólfur segir að mikilvægt sé að þeir sem hafa komist í snertingu við einstakling með mislinga fari í hálgerða sóttkví, frá degi sex eftir smit og til dags 21. Þannig megi koma í veg fyrir að smitið dreifist áfram.
„Í öðru lagi erum við að mælast til þess að einstaklingar og fjölskyldumeðlimir þessara einstaklinga sem hafa verið útsettir fyrir smiti fari í bólusetningu. Og það er forgangshópur. Og í þriðja lagi að þeir sem veikjast, og hugsanlega telja sig vera með mislinga, að þeir fari ekki á heilsugæslustöðvar eða sjúkrahús, heldur hringi í þetta númer 1700 og ræði þar við fólk. Og þá getur orðið ástæða til að senda lækni heim til þessa fólks sem myndi þá taka sýni til að greina viðkomandi, eða gera eitthvað sem þarf að gera frekar. Svo erum við með þennan síma 1700 þar sem fólk getur fengið upplýsingar varðandi mislinga og hvað eigi að gera,“ hefur RÚV eftir Þórólfi.
Þeim fjórum einstaklingum sem greinst hafa með mislinga hér á landi heilsast ágætlega. Þá segir Þórólfur að mikið sé hringt í neyðarnúmer. „Ég veit það ekki nákvæmlega en ég hef fengið fregnir af því að það glói allar línur hjá þeim, þannig að já, ég held að það sé mikið hringt,“ segir hann.
Nánar er fjallað um málið á vef RÚV.
Á vef landlæknis má lesa um mislinga en þar segir að um sé að ræða veirusjúkdóm sem er mjög smitandi. Hann einkennist af hita og útbrotum um allan líkamann. Sjúkdómurinn getur verið hættulegur og jafnvel valdið dauða. Upplýsingarnar hér að neðan eru fengnar af vef landlæknis:
Faraldsfræði
Mislingar var algengur sjúkdómur á meðal barna hér á árum áður. En eftir að farið var að bólusetja gegn honum hefur dregið mjög úr algengi hans í hinum vestræna heimi. Öllu jafna eru mislingar mildur sjúkdómur hjá börnum en allt að 10% þeirra sem sýkjast fá alvarlega fylgikvilla svo sem heilabólgu eða lungnabólgu.
Mislingafaraldur kom upp í Evrópu á árinu 2011 og 2012 og greindust um 30 þúsund einstaklingar með mislinga hvort árið. Flestir þeirra sem veiktust voru í Frakklandi, Ítalíu, Rúmeníu, Spáni og á Bretlandseyjum og voru óbólusettir. Margir þeirra sem sýktust dóu og aðrir hlutu alvarlega fylgikvilla.
Smitleiðir og meðgöngutími
Mislingaveiran er mjög smitandi og berst milli manna með úða frá öndunarfærum (t.d. hósta og hnerra). Veiran getur lifað og valdið smiti í allt að tvær klukkustundir eftir að hún berst út í andrúmsloftið.
Einkenni sjúkdómsins
Einkenni mislinga koma fram um 10–12 dögum eftir smit og geta verið mismikil eftir einstaklingum. Þau byrja oft með flensulíkum einkennum þ.e. hita, nefrennsli, sviða í augum, hósta, bólgnum eitlum og höfuðverk. Á þriðja eða fjórða degi veikindanna koma í flestum tilfellum fram útbrot sem ná yfir allan líkamann og standa í 3–4 daga eða þar til sjúkdómurinn fer að réna.
Mislingaveiran getur verið hættuleg og jafnvel valdið dauða. Alvarlegir sjúkdómar eins og eyrna- eða lungnabólga, kviðverkir, uppköst, niðurgangur og einnig heilabólga geta verið afleiðing mislinga.
Alvarlegar heilaskemmdir af völdum mislinga geta einnig komið fram mörgum mánuðum eftir sýkinguna.
Greining
Einkenni mislinga geta verið lík ýmsum öðrum sjúkdómum, rétt er að hafa samband við lækni til að fá staðfestingu á að um mislinga sé að ræða.
Meðferð
Sýklalyf gagnast lítið gegn mislingum þó getur verið nauðsynlegt að meðhöndla sýkingar sem eru afleiðingar af sjálfum sjúkdómnum með sýklalyfjum. Önnur meðferð lítur að hvíld, vökvainntekt og næringu. Hitalækkandi lyf geta hjálpað sjúklingnum að líða betur.
Forvarnir
Bólusetning gegn mislingum gefur um 95% vörn. Þátttaka á Íslandi í bólusetningu gegn mislingum hefur verið með ágætum á undanförnum árum eða tæplega 95%. Foreldrar eru hvattir til að halda áfram góðri þátttöku í bólusetningum því aðeins á þann hátt má halda þessum alvarlega smitsjúkdómi frá landinu.
Tilkynningarskylda
Tilkynningarskyldir sjúkdómar eru þeir sjúkdómar sem náð geta mikilli útbreiðslu í samfélaginu og jafnframt ógnað almannaheill. Læknum ber að tilkynna sóttvarnalækni um einstaklinga sem veikjast af mislingum með persónuauðkennum hins smitaða en einnig berast tilkynningar til sóttvarnalæknis frá rannsóknarstofum sem staðfesta sjúkdómsgreininguna. Tilgangur tilkynningar um smitsjúkdóm er að hindra útbreiðslu smits með markvissum aðgerðum t.d. með einangrun, meðferð smitaðra og rakningu smits milli einstaklinga. Til þess að fullnægja þessum skilyrðum verða upplýsingar um líklegan smitunarstað, smitunartíma og einkenni að fylgja tilkynningum. Þannig má tengja smitaða einstaklinga með faraldsfræðilegum hætti, meta áhrif smitsins og grípa til viðbragða.