„Síðustu 12 mánuðir hafa verið mjög erfiðir og samdrátturinn mikill. Það er mikil fjárbinding í þessum rekstri og nú sitjum við uppi með fullt af dekkjum en ekkert af peningum,“ segir Gunnar S. Gunnarsson, framkvæmdastjóri Sólningar, í samtali við Markaðinn í dag.
Þar er greint frá því að Sólning, sem hefur verið einn stærsti innflytjandi hjólbarða hér á landi um árabil, sé á leið í gjaldþrot. Greint er frá því að áttt manns muni að líkindum missa vinnuna og þá hefur fyrirtækið selt verkstæði sem áður heyrðu undir fyrirtækið.
Í frétt Markaðarins er haft eftir Gunnari að fólk þurfi ekki að hafa áhyggjur af geymsludekkjum. Þau verði áfram aðgengileg á verkstæðum sem eru samningsbundin fyrirtækinu. Tekjur fyrirtækisins árið 2017 námu tveimur milljörðum króna en hagnaðurinn tveimur milljónum. Árið 2018 var hins vegar erfitt fyrir fyrirtækið eins og Gunnar bendir á.