Pétur Ármann Hjaltason hefur verið dæmdur í tíu mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að draga sér 9,3 milljónir króna. Pétur starfaði sem útibússtjóri Sparisjóðs Suðurlands. Pétur var dæmdur fyrir að hafa á árunum 2011 til 2014 oftast millifært sjálfur peninga eða látið millifæra af reikningum Sparisjóðsins og viðskiptamanna hans yfir á eigin reikninga.
Pétur viðurkenndi öll brot sín. Í umfjöllun Stundarinnar frá árinu 2016 var rætt við leigubílsstjórann Júlíus Hólm Baldvinsson. Júlíus lánaði Pétri 4,6 milljónir króna. Júlíus sagði í samtali við Stundina:
„Við vorum kunningjar og hann var á þessum tíma útibússtjóri hjá sparisjóðnum. Ég fór nú stundum til hans í bankann að spjalla að gamni, því við þekktumst, og í eitt skipti sem ég kom spurði hann upp úr þurru: „Treystirðu mér?“ Ég sagðist gera það og þá spurði hann hvort ég gæti reddað sér. Hann væri við það að missa húsið og þyrfti lán fram yfir næstu mánaðamót. Þá myndi hann greiða allt til baka. Hann reddaði mér þá yfirdrætti upp á 4,6 milljónir og setti það inn á sinn reikning. Meira vissi ég ekki.“
Pétur greiddi hins vegar ekki af láninu um næstu mánaðamót og þurfti því Júlíus að greiða vexti. Júlíus ræddi við Pétur og segir að hann hafi ekki fengið nein svör. Fljótlega hafi Pétur verið rekinn, grunaður um milljóna fjárdrátt. Pétur annast nú öryggismál hjá malbikunarstöð.
Júlíus hefur þurft að greiða af láninu sem hann tók fyrir Pétur en var ekki greitt, yfirdrátt upp á 52 þúsund á mánuði. Júlíus sagði í samtali við Stundina að honum hefði liðið mjög illa út af þessu:
„Mér finnst djöfullegt af kunningja mínum að gera mér þetta. Þetta er ekkert grín. Maður á nóg með sjálfan sig. Þegar maður er með þessar skuldir þá er líka erfiðara að fá hjálp hjá lánastofnunum.“
Á sama tíma og Pétur Ármann var að draga sér fé skrifaði hann grein í Morgunblaðið sem hét stoltur starfsmaður Sparisjóðs. Pétur skrifaði:
„Ég er stoltur starfsmaður sparisjóðs og hef verið það frá byrjun árs 2000, þegar allt lék í lyndi og sparisjóðirnir áttu sér bjarta framtíð. […] þessum tíma sáu misvitrir menn að þarna var einhver fyrirtækjarekstur sem þyrfti að koma böndum á og orðtækið „fé án hirðis“ varð til. […] Ég er enn þá stoltur starfsmaður sparisjóðs og ætla mér að verða það áfram, ég vil viðhalda sparisjóðahugsuninni og fagna öllum sem vilja vinna með okkur að því að það takist.“
Rúv fjallaði einnig um málið. Þar sagði: „Félög sem höfðu enga raunverulega starfsemi fengu lán fyrir um hundrað milljónir króna frá útibúi Sparisjóðs Vestmannaeyja á Selfossi. Grunur er um að lög hafi verið brotin og málið verður rannsakað. skilaboðin sem stjórnin fékk þau að hluti af lánunum sem útibúið á Selfossi hafði veitt væru við fyrstu sýn stórkostlega óeðlileg. Þau hafi verið til fyrirtækja sem ekki voru starfandi, enginn rekstur á bak við þau. Lánveitingar þessar námu um hundrað milljónum króna eða rúmum tíu prósentum af eiginfé sparisjóðsins. […] Böndin berast að fyrrverandi útibússtjóra en hann var látinn fara í janúar, eftir fimmtán ára starf, og jafnframt kærður til lögreglu fyrir að draga sér fé, tæpar sjö milljónir króna.“
Eins og áður segir var um að ræða 13 skipti. Fyrir utan að neita að greiða kunningja sínum sem trúði aldrei að hann myndi sitja uppi með fimm milljóna skuld eftir Pétur, þá notaði hann peninga viðskiptavina og sparisjóðsins í utanlandsferðir, til að kaupa hluti fyrir sig persónulega og í nokkrar bílaviðgerðir.
Pétur Ármann viðurkenndi eins og áður segir brot sitt. Var útibússtjórinn fyrrverandi dæmdur í 10 mánaða fangelsi, allt skilorðsbundið.