Karlmaður sem var ákærður fyrir að veitast í þrígang að þáverandi sambýliskonu sinni með ofbeldi hlaut í gær tveggja mánaða skilorðsbundinn dóm fyrir ofbeldi í nánu sambandi og umferðarlagabrot. Fyrir ofbeldi í nánu sambandi er heimilt að dæma menn í allt að sex ára fangelsi, óskilorðsbundið.
Honum var gert að sök að hafa slegið sambýliskonu sína ítrekað í höfuðið með opnum lófa og ýtt henni í gólfið og slegið hana í lærið. Þetta átti sér stað í þremur atlögum, samkvæmt ákæru.
Fyrir dómi var fallið frá þeim hluta ákæru að hann hafi slegið hana í lærið. Hina liði ákærunnar játaði hann skýlaust og með málið var farið sem svonefnd játningarmál, en þá er málið tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu, en ákærða og verjanda hans þó gefinn kostur að tjá sig sérstaklega um lagaatriði og ákvörðun refsingar.
Fyrir dómi var því full sannað, með játningu hans, að hann hafi gerst sekur um ofbeldi í nánu sambandi. Sá sem sekur gerist um ofbeldi í nánu sambandi skal gert að sæta fangelsi í allt að 6 árum.
Auk ofbeldisbrotsins gerðist maðurinn einnig sekur, og játaði, um akstur undir áhrifum áfengis.
Í dómsorði segir:
„Einnig er, til refsiþyngingar, litið til alvarleika brotsins, afleiðinga og þess að ákærði veittist þrisvar að brotaþola, sem þá var sambýliskona hans, á innan við sólarhring.“
Það var þó manninum til málsbóta að hann játaði brot sín og hafði ekki áður verið dæmdur til refsingar. Dómara þótti refsing hæfilega ákveðin fangelsi í tvo mánuði skilorðsbundið.
Sambýliskonan fyrrverandi fór fram á tvær milljónir í miskabætur. Þar sem maðurinn hafði játað brot sín gegn henni átti hún rétt á miskabótum og taldi dómara, með tilliti til atvika og afleiðinga brotsins, miskabætur hæfilega ákveðnar 250 þúsund krónur.