Fullorðið fólk í Grímsey þarf að fara snemma að sofa aðfaranótt bolludagsins því þeir eiga von á að vakna við smávaxið innrásarlið sem „bollar“ þá á fætur langt fyrir fyrsta hanagal.
Flestir myndu bregðast ókvæða við ef þeir vöknuðu við það að sjö manneskjur stæðu yfir rúminu. En ekki Sigurður Bjarnason, Grímseyingur.
„Það mættu sjö stykki bara inn að rúmi hjá okkur og bolluðu okkur allhressilega milli 6 og 7, það er svona óvenju seint,“ sagði Sigurður í samtali við Morgunútvarp Rásar 2 í morgun en hann og kona hans vöknuðu við að sjö nágrannabörn stóðu yfir rúmi þeirra, tilbúin að bolla þau.
Þetta er liður í skemmtilegri bolludagshefð í Grímsey. Bolludagurinn í ár var óvenjumikill lúxus hjá Grímseyingum, því börnin mættu milli 6 og 7 um morguninn en tíðkast hefur að þau mæti til að bolla þegar enn er hádimm nótt.
„Þetta tengist sjómennskunni. Það var farið fyrr hérna áður fyrr, þegar menn voru að passa sig á ná sjómönnunum áður en þeir færu.“
„Svo er bræla núna svo þau gátu farið seinna.“
Börnin bolla Grímseyinga, en fá þó ekki bollu að launum líkt og venjan er annars staðar. Í Grímsey fá börnin nammi.
„Jú það er alltaf þessi hefð að hafa nammi fram við dyrnar, handa öllum og helst aðeins meira. Ég verð voða ánægður að hafa allavega nóg“
„Þetta er svona hefð að gefa þeim nammi og hefur alltaf verið“
Aðspurður segir Sigurður að það sé ekkert leiðinlegt að vakna með þessum hætti á bolludag.
„Nei þetta er ósköp notalegt. Við vorum einmitt að hlæja af því áðan ég og konan. Þau læddust alveg inn í herbergi til okkar, við vöknuðum ekki fyrr en þau stóðu bara við rúmið hjá okkur sjö stykki.“
„Ætli að við séum ekki bara orðin vön þessu og þetta eru skólabörnin og leikskólabörnin líka það voru tvö pínu pínu lítil þarna.“
Sigurður segir að þetta hafi tíðkast um áratuga skeið.
„Þetta eru einhverjir áratugir. Þetta var ekki svona þegar ég var krakki. Ég er náttúrulega orðinn eldgamall.“
Þegar Sigurður var lítill þá var það helst rétt áður en skólahald hófst sem börnin fóru á stjá og gengu milli ólæstra húsa til að „bolla“.
„Ég man eftir að það var fólk sem hafði svo gaman af þessu að það hoppaði upp í rúm til að láta bolla sig.“
„Þessu verður ekki sleppt. Það þar eitthvað mikið að ganga á svo þetta falli niður. Þetta er svona gömul hefð og ægilega gaman.“