Friðjón R. Friðjónsson almannatengill segir að hægt sé að vera hugsi yfir mörgu sem komið hefur frá Eflingu í þeim kjaradeilum sem nú standa yfir.
Friðjón hefur verið ómyrkur í máli í garð verkalýðshreyfingarinnar og sagði hann á dögunum að það hafi aldrei verið ætlun forsvarsmanna VR og Eflingar að ná samningum. Friðjón situr í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins og var hann aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra um tíma.
„Það er hægt að vera hugsi yfir mörgu sem komið hefur frá Eflingu í þessum kjaradeilum. Síðast liðinn mánudag gekk ég fram á Eflingar-sendibílinn fyrir utan Hótel Borg þar sem nokkrir starfsmenn stóðu í röð til að kjósa. Nú hef ég smá reynslu af kosningum og það sem ég sá var ekki í samræmi við neitt sem kallast gæti eðlileg framkvæmd kosninga,“ segir Friðjón í færslu sem hann skrifaði á Facebook í gærkvöldi.
Félagsmenn í Eflingu samþykktu tillögu um verkfallsboðun í síðustu viku með miklum meirihluta atkvæða. 89% þeirra sem kusu samþykktu verkfallsboðunina. Verkfallið mun ná til um 700 manns sem starfa við þrif á hótelum. 7.950 manns voru á kjörskrá en 862 greiddu atkvæði. Samtök atvinnulífsins telja atkvæðagreiðsluna ólögmæta og hafa höfðað mál gegn Eflingu fyrir félagsdómi.
Friðjón segist vera hugsi yfir þeirri framkvæmd kosninganna að láta átta þúsund manns kjósa fyrir 700 erlendar konur eins og hann orðar það.
„Þar blasir við að forysta Eflingar treysti ekki „aumingja útlensku konunum“ til að vita hvað sé þeim fyrir bestu. Þetta er einhverskonar Kiplingsk byrði hins upplýsta Íslendings að hugsa og kjósa fyrir útlendingana. Á bak við þetta vel meinandi yfirlæti er stæk mannfyrirlitning og óþol gagnvart skoðunum annarra. Ég vona innilega að Félagsdómur hendi þessari atkvæðagreiðslu út í hafsauga. Það má vel vera að meirihluti þeirra sem yfirvofandi verkfall tekur til vilji fara í verkfall, en við vitum það ekki. Forysta Eflingar sá til þess að við fáum ekki að vita það nema Félagsdómur standi með þernunum.“
Nokkrar umræður hafa skapast undir færslu Friðjóns þar sem hann er meðal annars gagnrýndur. „Það er eins og þér tapist allt vit þegar kemur að þessum málum, segir Fjalar Sigurðsson til að mynda og bætir við:„ Þú hefur gengið fram með óbilgirni og einhverjum undarlegum djöfulgangi sem virðir engin rök heldur reynir að demonisera andstæðinginn. Ég skil bara ekki á hvaða vegferð þú ert eiginlega. “
Friðjón svarar að bragði og segir að enginn sé að greiða honum fyrir þetta. „Þetta yfirlæti að treysta ekki fólkinu sem á að fara í verkfall finnst mér vægast sagt ógeðfellt. Það sviptir þau tækifærinu að tala með eigin röddu. Efling væri 100 sinnum trúverðugri ef þau treystu þessum félagsmönnum sínum,“ segir hann.
Hann bætir svo við að hann hafni því að honum tapist allt vit í þessari umræðu. „Það kraumar hinsvegar í mér pirringur yfir þessu vel meinandi yfirlæti sem ég hef kynnst í gegnum að vera hluti af hálf-íslenskri kynþátta blandaðri fjölskyldu og því í vin- og kunningskap við fólk sem einmitt verður fyrir barðinu á þessari “góðmennsku”.“