Á Facebooksíðu Eflingar kemur fram að 7.950 félagsmenn hafi verið á kjörskrá og að 862 hafi greitt atkvæði. Kosningaþátttakan var því tæplega 11%. 769 samþykktu verkfall, 67 voru því andsnúnir og 26 tóku ekki afstöðu.
Efling mun afhenda Samtökum atvinnulífsins og Ríkissáttasemjara verkfallsboðunina í dag þegar skrifstofur þeirra opna.
Á Facebooksíðu Eflingar er haft eftir Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formanni Eflingar, að niðurstaðan sé byr undir báða vængi í þeirri baráttu sem er framundan. Þeir hafi sent skýr skilaboð með atkvæðum sínum.
Samtök atvinnulífsins telja atkvæðagreiðsluna ólögmæta og hafa höfðað mál gegn Eflingu fyrir félagsdómi. Niðurstaða félagsdóms mun væntanlega liggja fyrir áður en boðað verkfall á að hefjast.