Lögreglan á Vestfjörðum stöðvaði ökumann í Ísafjarðardjúpi aðfaranótt miðvikudags, en maðurinn var að koma akandi frá höfuðborgarsvæðinu. Við leit í bifreiðinni fundust um hundrað grömm af kannabisefnum, nánar tiltekið marijúana.
„Í ljósi efnismagnsins leikur grunur um að efnin hafi átt að fara í dreifingu á norðanverðum Vestfjörðum. Í þágu rannsóknar málsins framkvæmdi lögreglan húsleitir í tveimur húsum á Ísafirði og annar maður var handtekinn og yfirheyrður. Mönnunum hefur nú verið sleppt. Málið mun síðan fara til ákvörðunar hjá ákærusviði embættisins,“ segir í tilkynningu frá lögreglu sem minnir einnig fólk á að koma ábendingum til lögreglu um allt sem tengist fíkniefnum.
„Hægt er að tilkynna það með hringingu til lögreglunnar, í síma 444 0400, með tilkynningu í skilaboðum á facebooksíðu lögreglunnar eða með því að hringja í upplýsingasímsvara lögreglunnar í síma 800 5005. Fullri nafnleynd er heitið hverjum þeim sem kemur slíkum upplýsingum á framfæri.“