Leit að manni sem talinn er hafa ekið bifreið sinni út í Ölfusá í gærkvöldi hefur enn engan árangur borið. Verið er að fjölga gönguhópum á svæðinu. Þetta segir Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, í samtali við mbl.is.
Davíð segir að á þriðja hundrað viðbragðsaðilar, þar af um 170 björgunarsveitarmenn, hafi komið að aðgerðunum frá því í gærkvöldi. Bátar hafa verið í ánni í morgun og þá hafa gönguhópar þrætt bakka hennar.
Í fréttinni kemur fram að lögreglan fari með stjórn aðgerða á vettvangi og telur hún sig vita hver maðurinn er. Hafa aðstandendur verið látnir vita.