„Þetta var klukkan rúmlega fimm sem lögreglan kom en veislan stóð frá klukkan fjögur til sex,“ segir Kolfinna Tómasdóttir, en óvænt og óþægileg uppákoma varð í áttræðisafmæli ömmu hennar þegar lögregla kom á staðinn og áreitti veislugesti. Fáheyrt er að lögregla sé kvödd til í áttræðisafmæli.
Reyndar var ekki kvartað undan hávaða veislugesta heldur því að sumir þeirra höfðu lagt í öfuga átt við akstursstefnu í stæðin í götunni. Það er ólöglegt og liggur við 10 þúsund króna sekt. Nokkrir veislugestir urðu 10 þúsund krónum fátækari eftir komu lögreglunnar á vettvang.
„Ég fór út og kíkti á þetta og sá að enginn hafði lagt fyrir innkeyrslu eða varnað frákeyrslu eða aðgangi með nokkrum hætti,“ segir Kolfinna og er ekki sátt við þessa framkomu við strangheiðarlega veislugesti í áttræðisafmæli.
„Mér þykir afskaplega leiðinlegt að svona gerist í áttræðisafmæli þegar flestir í afmælinu eru líka á þeim aldri og eiga kannski ekki auðvelt með að keyra eða leggja bílnum sínum. Þetta voru allt góð og gild stæði sem lagt var í, sumir bílarnir sneru bara öfugt.“
Kolfinna er ekki með á hreinu hvað margir gestir fengu sekt vegna þessa en þeir voru fleiri en einn. „Of margir,“ segir Kolfinna og segir að nokkir íbúar í götunni hafi verið sektaðir líka. „Það eru reglulega haldin boð hér í götunni en ég veit ekki til að áður hafi verið hringt á lögreglu vegna þess hvernig gestirnir leggja bílunum sínum,“ segir Kolfinna en boðið var haldið í rólegri götu í Árbænum.
„Súrt að menn leggi t.d. upp á gangstétt fyrir göngustíg í miðbænum óáreittir marga mánuði á ári, en svo kemur löggan í eitthvert úthverfi og sektar eldri borgara sem sneru bílunum sínum öfugt,“ segir Kolfinna, sem skiljanlega er mjög ósátt vegna málsins. Það eru fleiri.
Þorgerður Katrín ósátt
Kolfinna greindi frá málinu í Twitterfærslu sem vakið hefur mikla athygli. Meðal þeirra sem leggja þar orð í belg er Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, alþingismaður og formaður Viðreisnar. Þorgerður skrifar:
„Hvaða helv… della er þetta??“
Hvaða helv… della er þetta??
— þorgerður katrín (@thorgkatrin) February 25, 2019