„Í nótt fer kröpp lægð norður skemmt vestur af landinu. Í kjölfarið snýst í suðvestanátt, víða 23-30 m/s og því ekkert ferðaveður. En Vestfirðir sleppa líklega vel í þetta skiptið, þar er búist við mun hægari vindi,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.
Appelsínugul viðvörun er í gildi fyrir stóran hluta landsins; Norðurland eystra, Austurland, Austfirði, Suðausturland og Miðhálendið. Þá er gul viðvörun í gildi fyrir Suðurland og Strandir og Norðurland vestra.
Búast má við því að það fari að hvessa hressilega undir Eyjafjöllum um klukkan 20 í kvöld og gætu hviður farið í 35 metra á sekúndu. Akstursskilyrði gætu orðið varasöm, sér í lagi fyrir ökutæki sem eru viðkvæm fyrir vindi.
Í nótt skellur á ofsaveður á Miðhálendinu og snemma í fyrramálið verður rok eða ofsaveður á Norðurlandi eystra, Austurlandi að Glettingi og Austfjörðum. Mun vindur líklega ekki ganga niður fyrr en annað kvöld á Austurlandi, Austfjörðum og Miðhálendinu. Eru líkur taldar á foktjóni og þá verður ekkert ferðaveður á þessum slóðum, að því er fram kemur á vef Veðurstofunnar.