Karólína Sigríður Guðmundsdóttir varð fyrir skelfilegri lífsreynslu á skemmtistaðnum Bakken í Kaupmannahöfn um helgina. Hún var barin svo fast að það sér á henni en eins og mynd með fréttinni ber með sér skildi höggið eftir stóran marblett. Þegar Karólína kvartaði undan ofbeldinu við dyraverði segir hún að sér hafi verið mætt með dónaskap og lítilsvirðingu. Segir hún að dyraverðir hafi sakað hana um lygar og vildu þeir ekkert aðhafast í málinu. Vinkona Karólínu varð fyrir áreitni á sama skemmtistað og vildu dyraverðir ekki heldur bregðast við í hennar máli.
Karólína birtir stöðufærslu á Facebook um helgina sem er eftirfarandi:
Kæru vinir og vandamenn.
Ég fór á Bakken (skemmtistaðinn en ekki skemmtigarð) í köben og lenti í því að vera barin af ókunnugri konu í brjóstið. Ekkert laust heldur nógu fast til að fá mjög stóran marblett. Ég fór svo auðvitað og sagði dyraverðinum hvað hafði gerst en í stað þess að fá einhverja aðstoð var mér bókstaflega sagt að halda kjafti. Eða orðrétt “shut the fuck up.”
Svo fór ég aftur á sama stað í kvöld og vildi reyna að ræða við annan dyravörð um þessi lélegu viðbrögð, nema í stað þess að hlusta á mig sagði maðurinn (myndaður hér að neðan) að ég væri bara að ljúga. Því konur eru náttúrlega alltaf að ljúga. Sama hvað ég og vinir mínir (sem voru vitni að þessum barsmíðum og dyraverðinum að segja mér að halda kjafti) reyndum, þá hélt maðurinn því fram að ég væri bara ekki að segja satt.
Eftir þetta mátti ég ekki fara inn til að ná í kápuna mína né hitta þá vini sem ég kom með. En svo má ég heldur aldrei koma inn á staðinn aftur því ég var með svo lélegt attitude.
Ofan á allt saman kom vinkona min út grátandi vegna þess að hún hafði verið kynferðislega áreitt, hún leitaði til sama dyravörðs sem ég reyndi að tala við nema í stað þess að gera eitthvað í málinu sagði hann að það væri mér að kenna að hún væri grátandi. Bæði fyrir og eftir að hún útskýrði fyrir honum hvað gerðist.Ég bið bara alla Íslendinga í Danmörku, og á Íslandi, að deila þessu og boycotta þennan stað þar sem maðurinn sagði að ég myndi ekki ná að gera neitt af gagni, að ég væri lygari og heimsk.
Í stuttu samtali við DV segir Karólína að henni þyki mikilvægt að segja frá svona framkomu og er hún ánægð með hvað málið hefur fengið mikla athygli á Facebook og hvað stöðufærslu hennar um málið hefur verið dreift víða.