Ósáttur við kröfuvakt bankans tveimur árum eftir gjaldþrot
„Ég skammast mín ekki fyrir að hafa orðið gjaldþrota árið 2014 í framhaldi af viðskiptum sem ég var í fyrir hrun.“ Á þessum orðum hefst pistill eftir leikarann Valdimar Örn Flygenring sem tapaði ævisparnaðinum í viðskiptunum og var lýstur gjaldþrota í ágúst 2014. Hann kveðst alfarið hafa farið eftir ráðleggingum bankans í fjárfestingum sínum og trúi því að þær hefðu farið fram eftir bestu vitund bankans. En svo fór sem fór.
„Ég tapaði öllu sem ég hafði unnið mér inn á rúmum 30 árum,“ segir Valdimar og bætir við:
„Bankinn tók að sjálfsögðu húsið mitt, bíl, hjól og svo framvegis skipti svo sem engu þó að lánin hafi meira og minna verið ólögleg. Ekki hafði ég efni á því að fara í mál við bankann fyrir villandi ráðleggingar enda þar fyrir her lögfræðinga í árangurshvetjandi launakerfi.“
Þá segir Valdimar í pistlinum að hann hafi staðið við sinn hluta af samkomulaginu í þessi tvö ár. En í stað þess að vera frjáls undan gjaldþrotinu líkt og honum hafði verið talin trú um þá er bankinn búinn að setja upp kröfuvakt.
„Kröfum bankanna var ekki andmælt við gjaldþrot, enda til hvers? Nú er ég ekki lengur á vanskilaskrá en lánin í bankanum eru enn í svokallaðri kröfuvakt. Ég ætlaði að fá kreditkort á kt félags sem ég er með í ferðaþjónustu en var tjáð að það myndi ekki ganga þar sem skuldasaga mín væri þannig!“
Valdimar gagnrýnir harðlega að bankinn sem hann hefur verið í viðskiptum við nánast alla ævi tilkynni sér að hann hafi núll prósent lánstraust hjá þeim.
„Peningarnir mínir sem hafa í gegnum tíðina farið til bankans og þeir notuðu til að búa til
froðupeninga, sem fóru með allt í rassgat hérna 2008. Á sama tíma sluppu háttsettir innanbúðarmenn að mestu við áföll (og stóðu moldríkir eftir) og þeir rifu af mér allar eigur mínar á hrakvirði tilkynnir mér að ég hafi núll prósent lánstraust hjá þeim“
„Þrátt fyrir að ég sé ekki lengur gjaldþrota og láti bankanum í té allt mitt fé um hver einustu mánaðamót og hafi alltaf gert alla mína ævi?
Valdimar segir að fjármálaeftirlitið sé til að tryggja stöðugleika bankakerfisins, ekki viðskiptavinarins. Það sé rekið af bönkunum sjálfum svo þeir þurfi ekki að hlíta úrskurðum þess í deilumálum nema þeim sýnist svo.
Undir lok pistilsins segir Valdimar frá því að hann hafi sé heimildarmynd á RÚV sem útskýrði það svo að þetta kerfi sem við búum við muni eyðileggja allt líf á jörðinni verði því viðhaldið.
„PS. Bankarnir fengu nánast allar sínar skuldir afskrifaðar, skiptu um kennitölu og rukka svo okkur 300%. Á mér svo að líða það sem eftir er ævinnar sem gríðarlegum óreglupésa.?
VERÐUR EKKI AÐ FARA AÐ GERA EITTHVAÐ Í ÞESSU?“