Jón Jacobsen, sem dæmdur var í fimm ára fangelsi fyrir fíkniefnasmygl og lauk afplánun árið 2000, kláraði í fyrrasumar að borga sakarkostnaðinn vegna málsins. Jón segir að gera þurfi föngum auðveldara að verða löghlýðnir borgarar að lokinni afplánun.
Jón sagði frá þessu í kvöldfréttum Sjónvarps í gærkvöldi. Hann hefur á undanförnum árum aðstoðað fanga við að fóta sig í lífinu eftir fangelsisvist.
Jón sagði að margt jákvætt væri að gerast í fangelsismálum hér á landi, fangar búi þó enn við refsivist með betrunarívafi. Aðspurður segir hann að meðferðarstarf þurfi að breytast til að fangelsivist verði meiri betrun en refsing. Afbrot tengist neyslu á áfengi eða fíkniefnum í miklum mæli.
„Annað hvort að fjármagna eða afbrot framið í vímu. Og ég held að það þurfi að setja mikið meiri fókus þar inn.“
Jón starfar sem ráðgjafi á Krýsuvík og hefur hann verið edrú í fimmtán ár. Hann segir mikilvægt að auðvelda fólki að verða virkir þátttakendur í þjóðfélaginu að lokinni afplánun.
„Um leið og hann er orðinn skattgreiðandi, þá er kominn krafa á hann um barnameðlög, það er sakarkostnaður og alls konar svona og launin duga ekki. Það er raunveruleikinn. Er ekki betra að hann sé að borga skatta og skyldur heldur en að fara í gamla farið og verði byrði á þjóðfélaginu,“ spyr Jón og nefnir að það hafi tekið hann 22 ár að greiða sakarkostnaðinn í sínu máli.
Jón segist hafa átt sér einn draum þegar hann sat inni í fangelsi á sínum tíma.
„Þegar ég sat inni þráði ég ekkert heitar en fjölskyldu og þetta venjulega líf. En raunin varð sú að þetta var of erfitt skref fyrir mig. Sem betur fer er ég búinn að vera edrú í 15 ár og á frábært líf í dag en þetta er ekkert auðvelt. Þú veist. Við erum bara örfáir sem erum að ná að verða fúnkerandi í norminu, ef við getum kallað það það. Og það er það sorglega.“