Sigmundur Vigfússon er einbúi á Flókastöðum í Fljótshlíð. Fjölskylda hans var mikið í samfélagsumræðunni fyrir tæpri öld þegar upp komst umfangsmikil bruggunarstarfsemi í jarðhúsi á bænum. Sigmundur var einn viðmælanda Jóns Ársæls í þættinum Paradísarheimt á RÚV í gær.
Sigmundur hefur búið á Flókastöðum allt sitt líf. Með honum bjó tvíburabróðir hans Karl, en hann er nú látinn.
„Maður er nú ekki eins hress og maður var,“ sagði Sigmundur, en hann er á níræðisaldri. Í apríl 1934 uppgötvaðist umfangsmikil bruggstarsemi fjölskyldunnar í jarðhúsi við bæinn. Jarðhúsið var 12 metrar að flatarmáli og um 2 metrar að hæð, allt neðanjarðar. „Ég man alltaf að við vorum með matskeið með sykurmola í, við vorum , krakkar. Það var sykurmoli í matskeiðinni,“ sagði Sigmundur og lýsti hvernig hann og bróðir hans fengu að smakka spíra í skeið, ungir að aldri.
Á forsíðu Alþýðublaðsins þann 27. apríl 1934 segir frá: „Fullkomnustu og stærstu bruggunarverksmiðju, sem fundist hefir hér á landi, í stóru jarðhúsi í túninu að Flókastöðum í Fljótshlíð.“. Á þessum tíma, bannárunum, var bannað að framleiða og selja áfengi og margir sem drýgðu tekjur sínar með því að framleiða heimabrugg og selja sveitungum sínum. Til að stemma stigu við því háttalagi voru starfandi sérstakir löggæsluaðilar sem kallaðir voru þefarar sem leituðu uppi lögbrjóta sem brugguðu áfengi í trássi við lögin. Þeirra frægastur var Björn Blöndal Jónsson, en hann var einmitt maðurinn sem kom upp um bruggstarfsemina á Flókastöðum.
„Hann var helvíti strangur, Björn Blöndal sko,“ sagði Sigmundur. Björn Blöndal ræddi við Alþýðublaðið um fundinn á Flókastöðum.
„Þegar við komum þarna að voru hvorki meira né minna en 1000 lítrar í gerjun,“ sagði Björn og lýsti því svo hvernig hann og hans menn eyðilögðu bruggtækin og jarðhúsið. Bræður Sigmundar voru táningar þegar málið kom upp og reyndi einn þeirra að taka á sig sökina fyrir fjölskylduföðurinn og bræður sína. Björn Blöndal taldi þó ljóst að fjölskyldan væri öll viðriðin málið: „Er það því augljóst, að þarna er um heila bruggarafjölskyldu að ræða. Börnin fara að hjálpa foreldrum sínum og eldri systkinum við bruggið undir eins og þau komast á legg.“
Sigmundur sagði að fjölskyldan hefði ekki skammast sín fyrir bruggið, þrátt fyrir að upp um það hefði komist. Þau voru 10 systkinin og slíkur fjöldi getur verið dýr í rekstri.
„Þetta voru svo margir sem voru að gera þetta fyrir sjálfa sig. Það voru svo margir, það var ekki bara hérna. En pabbi seldi þó nokkuð mikið bara til að halda lífinu í krökkunum.“
Faðir Sigmundar lifði og lést á Flókastöðum. „Hann sat hérna inni og elsti bróðir minn var að tala við hann. Og þá sat hann bara í sófa hérna og er allt í einu dáinn.“ Þetta átti sér stað á jóladag. Sömu sögu er að segja af tvíburabróður Sigmundar, Karli, sem einnig lést á jóladag heima á Flókastöðum. „Hann varð bara allt í einu bráðkvaddur. Sat bara á heybagga, við vorum að gefa nautunum sko. Þetta var á jóladag.“ Á Flókastöðum býr Sigmundur nú einn og þar virðist hann ætla að vera lífið allt. „Við bjuggum alltaf hérna, við bróðir minn. Við vorum með garðrækt,“ sagði Sigmundur sem hefur aldrei nennt að standa í því að finna sér konu. „Ég hef bara ekki nennt að standa í því að festa mig.“ Sigmundur sér eftir fjölskyldu sinni, en hann stendur nú einn eftir af 10 systkinum.
„Það eru mikil viðbrigði að missa samferðarfélaganna. En lífið heldur áfram. Það þýðir ekkert að gefast upp“