Töpuðu málinu fyrir Hæstarétti í dag
Sushisamba ehf. er óheimilt að nota heitið sushisamba í veitingarekstri sínum. Þetta er niðurstaða Hæstaréttar, en dómur var kveðinn upp í dag. Í dómnum er úrskurður áfrýjunarnefndar hugverkaréttinda, sem komst að annarri niðurstöðu, felldur úr gildi.
Sushisamba ehf. þarf að greiða alþjóðlegu keðjunni Samba LLC eina og hálfa milljón króna fyrir að nota nafnið sem þeim var óheimilt að gera. Sushisamba ehf. rekur vinsælan veitingastað sem ber nafnið í miðbæ Reykjavíkur.
Þá þarf Sushisamba að greiða Samba LLC tvær milljónir króna í málskostnað fyrir héraði og í Hæstarétti.
Samba LLC í Bandaríkjunum höfðaði málið með stefnu þann 19. nóvember 2014. Héraðsdómur hafði sýknað Sushisamba ehf.