Tveir piltar voru fluttir á slysadeild til skoðunar og aðhlynningar eftir flugeldaslys í morgun.
Í dagbók lögreglu kemur fram að tilkynnt hafi verið um slysið rétt eftir klukkan 10, en slysið varð við skóla í Háaleitis- og Bústaðahverfi. Ekki kemur fram í dagbók lögreglu hvort piltarnir hafi slasast mikið.
Skömmu síðar var tilkynnt um tjón af völdum flugelda í skóla í miðborginni.
Þó nokkur erill hefur verið hjá lögreglu það sem af er degi. Um níu leytið var tilkynnt um eignaspjöll sem höfðu verið unnin á vinnuvél í Hafnarfirði.
Þá var tilkynnt um samkvæmishávaða frá íbúð í fjölbýlishúsið í Kópavogi, en húsráðandi lofaði að lækka eftir viðræður við lögreglu. Tilkynnt var um hávaðann klukkan sex í morgun. Þá var tilkynnt um innbrot í bifreið og innbrot og þjófnað úr nýbyggingararsvæði í Kópavogi.
Þá var tilkynnt um innbrot og eignaspjöll í Mosfellsbæ, Grafarvogi og Grafarholti. Skemmdir voru unnar á rafmagnsbúnaði á byggingarsvæði í Mosfellsbæ, brotist var inn í vinnuskúra í Grafarvogi og skemmdir voru unnar á vörubifreiðum og vinnuvélum í Grafarholti og Úlfarsárdal.