Enski boltinn er nokkurs konar sófaþjóðaríþrótt Íslendinga. Fáar ef nokkrar þjóðir hafa meiri áhuga á bresku boltasparki og flestir eiga sitt lið sem þeir styðja fram í rauðan dauðann.
DV tók hús á nokkrum gallhörðum stuðningsmönnum og spurði þá hvernig þeim litist á tímabilið sem nú er í gangi.
Logi Már Einarsson, formaður Samfylgingarinnar, er harður stuðningsmaður West Ham og fylgist reglulega með sínum mönnum.
„Ég styð West Ham, líkt og Barack Obama, og hef gert það frá barnæsku. Þá voru margar frægar kempur í liðinu en mest hélt ég upp á framherjann knáa Clyde Best, frá Bermúda en hann var einn fyrsti þeldökki leikmaður efstu deildar,“ sagði Logi.
,,Þrátt fyrir rysjótt gengi hjá þessu gamla austurbæjarliði hef ég þó verið því trúr og þekki það svo sem ágætlega hvernig það er að síga upp og niður töfluna í pólitíkinni.“
Gengi West Ham hefur verið upp og niður síðustu ár en liðið situr í 10. sæti úrvalsdeildarinnar þessa stundina.
Logi nefnir einnig tvo leikmenn sem hann hélt mikið upp á, þá Paolo Di Canio og Carlos Tevez.
,,Ég gleðst þegar vel gengur og hef dáðst að einstaka afburðaleikmanni sem skolað hefur á fjörur klúbbsins. Ég er alltaf svolítið veikur fyrir litríkum sólóistum á fótboltavellinum og þar eru minnisstæðastir Ítalinn Paolo Di Canio og Argentínumaðurinn Carlos Tevez. Nú er West Ham um miðja deild og það svalar mínum metnaði fullkomlega.“