Geir Þorsteinsson hefur staðfest framboð sitt til formanns KSÍ. Þetta gerði hann í útvarpsþættinum Fótbolta.net á X977.
Geir lét af störfum fyrir tveimur árum sem formaður KSÍ og hefur Guðni Bergsson sinnt því starfi undanfarin ár.
Ársþing KSÍ fer fram þann 9. febrúar næstkomandi og verður baráttan hörð á milli Geirs og Guðna.
Geir viðurkennir það að hann sé ekki óumdeildur en talar um að hann sé betri maður í dag en hann var fyrir tveimur árum.
,,Ég er ekki óumdeildur, langt því frá. Ég hef misstigið mig á mínum ferli, mitt líf hefur farið upp og niður,“ sagði Geir.
,,Ég tel að ég hafi lært góð gildi og ég er betri manneskja í dag en fyrir tíu árum og betri manneskja í dag en fyrir tveimur árum.“
Á Eyjunni í gær birtist orðið á götunni þar sem ekki var farið fögrum orðum um stjórnunartíð Geirs.
Geir var spurður út í þessar ásakanir og viðurkennir að það gæti vel gerst að hann hafi fengið sér aðeins í tána í fagnaðarlátunum á sínum tíma.
Hann segir þó að umfjöllunin sé ósanngjörn að öllu leyti og kýs að nota krafta sína í annað en að svara öllum þeim ásökunum sem gætu endað á hans borði.
,,Ég átti alveg von á því að ég fengi einhvern óhróður yfir mig. Árangur kemur ekki að sjálfu sér.“
,,Það þarf mikla vinnu til að ná árangri. Það getur vel verið að ég hafi einhvern tímann fengið mér of mikið í tána þegar ég var að fagna góðum árangri. Það kann vel að vera.“
,,Ég þarf að læra af því og koma faglega fram. Ég hef þroskast þessi tvö ár sem ég hef stigið til hliðar og ég get gert betur í ýmsum málum.“
,,Ég ætla ekki að eyða kröftum mínum í að svara þessu. Þetta er ósanngjarnt að öllu leyti að mínu viti.“