Tvær líkamsárásir voru tilkynntar til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um miðnættið, báðar áttu sér stað í miðborginni. Rétt eftir klukkan 12 í gærkvöldi var tilkynnt um líkamsárás og árásarmaðurinn handtekinn og sendur í fangageymslu lögreglu vegna rannsóknar málsins. Maðurinn sem fyrir árásinni varð var fluttur með sjúkrabíl á slysadeild en ekki er vitað nánar um meiðsl hans.
Stuttu síðar, eða rétt fyrir klukkan hálf eitt í nótt, var tilkynnt um líkamsárás við veitingahús í miðborginni. Þar hafði hópur manna ráðist á einn. Þegar lögregla kom á vettvang var hópurinn á bak og burt en sá sem fyrir árásinni varð var fluttur með sjúkabíl á slysadeild. Hlaut hann meðal annars áverka á höfði.
Lögreglan hafði nóg að gera í nótt og voru nokkrir ökumenn stöðvaðir grunaðir um ölvun við akstur. Þá hafði lögregla afskipti af manni í nótt sem var til vandræða í Hlíðunum. Ekki kemur fram í dagbók lögreglu hvað maðurinn gerði en hann var vistaður í fangageymslu.
Þá er þess getið í dagbók lögreglu að tveir menn hafi verið handteknir í Breiðholti rétt fyrir klukkan átta í gærkvöldi vegna gruns um sölu og dreifingu áfengis og fíkniefna. Mennirnir voru handteknir og vistaðir í fangageymslu.