Fresturinn sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra gaf bankaráði Seðlabankans til að skila greinargerð um Samherjamálið, rann út þann 7. desember. Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmaður, sem var gagnrýninn á fyrstu viðbrögð forsætisráðherra um málið og vildi að hún myndi reka Má Guðmundsson sem Seðlabankastjóra vegna málsins, skrifaði pistil í dag um að ekkert hafi heyrst frá bankaráðinu. Segir hann að verið sé að drepa málinu á dreif:
„Nokkrir dagar eru nú liðnir fram yfir skilafrest bankaráðsins án þess að séð verði að ráðið hafi svarað. Þá er einna helst svo að sjá að þjóðin sé búin að gleyma málinu. Svona fara atvinnumenn að því að bíta af sér óþægileg mál. Það tekur ekki nema þrjár vikur!“
Samkvæmt svari upplýsingafulltrúa Seðlabankans við fyrirspurn Eyjunnar um málið, segir að bankaráðið hafi þurft rýmri tíma til að svara erindinu og hefði því farið fram á að skila greinargerðinni síðar, en ekki er ljóst hversu langur sá frestur sé.
UPPFÆRT kl. 14:08
Samkvæmt svari Seðlabankans fær bankaráðið frest þangað til síðar í desember til að svara forsætisráðherra. Engin dagsetning er gefin upp í svarinu.
Katrín óskaði eftir því bréfleiðis til Gylfa Magnússonar, formanns bankaráðs Seðlabanka Íslands, að skila greinargerð um Samherjamálið, þar sem Seðlabankinn hafði komist að þeirri niðurstöðu að stærsta útgerðarfyrirtæki landsins hefði brotið gjaldeyrislög. Hæstiréttur komst hinsvegar að annarri niðurstöðu og felldi sekt Seðlabankans til Samherja upp á 15 milljónir, niður.
Í bréfinu óskaði Katrín eftir skýringum á því hvað lá að baki ákvörðun Seðlabankans um að taka upp málið að nýju, og með hvaða hætti bankinn hyggist bregðast við dómi Hæstaréttar. Og þá hvort niðurstaðan kalli eftir úrbótum á stjórnsýslu hans og með hvaða hætti þær úrbætur verði gerðar.
Þá benti Katrín á í bréfinu að lög um Seðlabankann væru til endurskoðunar, en einnig stendur til að sameina Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið.
Sjá einnig: Katrín krefur Seðlabankann um svör í máli Samherja