Ástmaður Jasmine Teed sleit sambandi þeirra mjög skyndilega – Hún lét það ekki stöðva sig
Jasmine Teed, 32 ára kandískur rithöfundur og kennari, hafði skipulagt ferð um Ísland og áfram um Evrópu. Hún ráðgerði að bjóða ástmanni sínum með í ferðina. Sá yfirgaf Jasmine hinsvegar skyndilega og hætti í öllum samskiptum við hana. „Mér fannst það mjög dónalegt hvernig hann sleit sambandinu,“ er haft eftir henni í frétt Daily Mail . Í stað þess að láta hugfallast og slaufa ferðinni þá skellti Jasmine sér ein af stað og tók með pappaspjald sem á stóð „Þú gætir verið hérna.“ Þetta spjald skipaði síðan veglegan sess á þeim myndum sem Jasmine tók í ferðinni, meðal annars frá Íslandi.
Jasmine hafði þekkt manninn í nokkur ár áður en ástareldur kviknaði milli þeirra. Hann var atvinnuflugmaður og þegar sambandið hafði staðið í stuttan tíma þá þekktist hún boð hans um að fara í ferð um borð í einkaflugvél, sem flugmaðurinn hafði aðgang að. Sá Jasmine fyrir sér að ástarsambandið yrði að einhverju meiru og skipulagði í huganum áðurnefnda ævintýraferð með viðkomu á Íslandi. Skömmu fyrir snúninginn í einkaflugvélinni sleit ástmaðurinn hinsvegar öllum samskiptum við hana skyndilega og Jasmine sat uppi með sárt ennið.
Eins og áður segir þá skellti hún sér hinsvegar í ferðina og sendi ástmanninum fyrrverandi pillur á hverjum viðkomustað með myndum af sjálfri sér og pappaspjaldinu. Myndirnar hafa vakið verulega athygli á samfélagsmiðlum. „Það jafnast ekkert á við hrjóstrugt landslag Íslands og þú ert að missa af því,“ skrifaði Jasmine við eina myndina. Að hennar sögn snýst gjörningurinn ekki um ástmanninn heldur því að vera ekki háður einhverjum einstaklingi til þess að lifa lífinu. „Ef að þú finnur ekki hinn fullkomna ferðafélaga þá skaltu bara ferðast ein og upplifa ævintýri. Margir sjá myndir af pörum á samfélagsmiðlum að gera skemmtilega hluti en þú þarft ekki maka til þess að upplifa eithtvað skemmtilegt, segir hún.