Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra setur fullveldishátíð við hátíðlega athöfn framan við Stjórnarráðshúsið við Lækjargötu í dag, 1. desember kl. 13:00. Haldin verða stutt ávörp í bland við tónlistarflutning. Ungmennaráð Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna tekur virkan þátt í athöfninni og munu Kristbjörg Mekkín Helgadóttir og Mathias Ölvisson, fulltrúar ráðsins, ávarpa viðstadda. Þá mun Jelena Ćirić tónlistarkona flytja ávarp.
Söngfólk ásamt blásarasveit annast tónlistarflutning við athöfnina fyrir utan Stjórnarráðið.
Það viðrar þokkalega til hátíðarhaldanna í höfuðborginni og um að gera að klæða sig upp og taka þátt. Hiti verður við frostmark og nokkuð sterk norðaustangola, eða um 8 metrar.
Hátíðahöld verða á Lækjartorgi, í Lækjargötu, Bankastræti, Hverfisgötu og Arnarhóli. Bílaumferð verður takmörkuð um þessi svæði.
Fullveldisafmælinu verður fagnað með ýmislegum hætti um allt land. Sjá nánar á vefsíðunni fullveldi1918.is.