„Það verður þannig að ég loka mig af og þetta er bara mitt leyndarmál,“ segir Henný Hermanns en hún var stjarna á einni nóttu þegar hún sigraði keppnina um Alheimstáninginn -Miss Young International í upphafi áttunda áratugarins. Hún lifði miklu glanslífi næstu árin og naut velgengi á ýmsum sviðum en gekk jafnframt í gegnum mikla erfiðleika í einkalífinu.
Þetta kemur fram í viðtali við sjónvarpsþáttinn 21 á Hringbraut en á dögunum kom út ævisaga Hennýjar Vertu stillt. Frænka Hennýjar,Margrét Blöndal skrifar sögu hennar.
Henný lýsir því hvernig það var mikið líf og fjör á æskuheimili hennar en hún var einstaklega lífsglöð og kraftmikil sem barn og unglingur. Eftir að hún var kjörin Miss Young Internation árið 1971 varð hún landsþekkt, naut velgengi sem sýningarstúlka, ferðaðist víða og starfaði meðal annars sem verslunareigandi og flugfreyja.
Líf hennar hefur þó ekki alltaf verið dans á rósum. Henný var í tíu ára sambúð með manni sem beitti hana ofbeldi en hún hefur aldrei áður tjáð sig opinberlega um þennan hluta lífs síns.
„Þetta verður svo mikil vanlíðan. Af því að ég er þessi karaker: opin og glöð og alltaf kát og í kringum skemmtilegt fólk. Mikið hlegið og dansað og mikil músík.
„Maður fer að einangra sig. Karakterinn breytist. Það verður þannig að ég loka mig af og þetta er bara mitt leyndarmál og svo verð ég að reyna að vera káta stelpan út á við, alveg sama hvernig mér leið,“
segir Henný en fram kemur að hún hafi reynt að hylja áverkana eftir ofbeldið með andlitsfarða og þykkum klæðnaði.
Undir lokin þurfti Henný að fá nálgunarbann á fyrrverandi eiginmann sinn en það kostaði hana mikið erfiði að fá sig lausa úr hjónabandinu.
„Kerfið er þannig að það er erfitt að fá skilnað í gegn nema gera þetta og þetta og þetta. Þetta var mjög flókið ferli og hann gat alveg ráðið því. Ef hann mætti ekki, þá vorum við ennþá gift.“