„Langvarandi fátækt skerðir líkamlega og andlega heilsu. Er ekki betra að eldra fólk geti valið þá þjónustu sjálft sem það þarfnast, og greitt fyrir hana, en að halda því í fátækt?,“spyr Ólafur Kristófersson eftirlaunaþegi.
Í pistli sem birtist á vef Fréttatímans bendir Ólafur á bág kjör eldri borgara hér á landi.Sjálfur fær Ólafur greiðslur úr lífeyrissjóði og að auki lágmarksgreiðslu frá Tryggingarstofnun en sú greiðsla skerðist vegna þeirra tekna sem hann fær frá lífeyrissjóðnum. Samanlagðar tekjur hans eru 300 þúsund krónur á mánuði.
„Fyrir nokkrum dögum réðist ég í fyrirbyggjandi viðhald á fasteign minni. Framkvæmdin var ekki stór í sniðum né tímafrek, ég keypti efni og vinnu iðnaðarmanns í fimm tíma. Kostnaður við verkið með virðisaukaskatti var nokkru hærri en samanlagðar netto mánaðartekjur mínar frá lífeyrissjóði og Tryggingarstofnun, eftir skatt. Ekkert eftir til að kaupa mat þennan mánuðinn!
Hann bendir einnig á að ef hann á fé á bankareikning þá skerða vaxtatekjurnar greiðslur fráTryggingarstofnun. Ef hann á maka sem á fé á bankareikning, þá eru vaxtatekjur okkar lagðar saman og deilt með tveimur, og báðir aðilar skerðast jafnt hjá Tryggingastofnun.
Hann bendir jafnframt á þá staðreynd að á meðan meðallaun launafólks eru um kr. 700.000 á mánuði, fyrir skatt þá býr margt eldra fólk býr við þröngan kost, einkum fólk sem ekki hefur áunnið sér mikil réttindi í lífeyrissjóði.
„Var einhver að tala um fjárhagslegt sjálfstæði einstaklinga?“