Jón Gnarr rithöfundur, grínisti og fyrrum borgarstjóri segir Stundina hafa reynt markvisst að koma á hann höggi í kjölfar útgáfu bókarinnar Útlaginn. Í kjölfar Banksy málsins svokallaða sem kom upp fyrr í mánuðum hafi Morgunblaðið, Vísir og Fréttablaðið beitt sér gegn honum með tilhæfulausum ásökunum.
Í pistli sem Jón birtir á facebook síðu sinni lýsir hann sambandi sínu við íslenska fjölmiðla í gegnum tíðina. Segist hann lengst af hafa átt ágætt samband við fjölmiðla og á ákveðinn hátt hafi opinber persóna hans orðið til á síðum dagblaða. Íslenskir fjölmiðlar hafi lengst af verið honum frekar velviljaðir.
„Ég upplifði aldrei neina óvild frá fjölmiðlum. Það kom fyrir að einstaka blaðamönnum líkaði ekki við mig eða verk mín og ég hef í gegnum tíðina fengið allskonar gagnrýni fyrir allskonar sem ég hef gert. Sumt hefur verið gott en undan öðru hefur sviðið, eins og gengur. Stundum hefur einhver verið að skrifa eitthvað um mig, sem mér hefur fundist bjáni. Eitt sinn skrifaði blaðamaður Morgunblaðsins umfjöllun um mig sem var byggð á persónulegri óvild hans á mér. Mér fannst það ekki þægilegt en það truflaði mig ekkert rosalega mikið. En það stuðaði mína nánustu meira og ef ég man rétt þá misbauð tengdamömmu svo að hún sagði upp áskriftinni af Mogganum.“
Jón segist aldrei hafa verið flokkspólitískur og þá hafi hann ekki látið sig varða meint tengsl fjölmiðla við tiltekna stjórnmálaflokka eða hagsmunaöfl. Segist hann aldrei hafa verið í neinu „liði. Það var ekki fyrr en Jón tók við starfi borgarstjóra Reykjavíkur að hann fór að skynja óvild í sinn garð frá fjölmiðlum, eins og hann lýsir:
„Þá allt í einu var það ekki lengur hlutverk fjölmiðla að kynna mín verk eða bjóða uppá safarík helgarviðtöl við mig heldur veita mér aðhald og vaka yfir hverri hreyfingu minni eins og hverjum öðrum stjórnmálamanni. Og það var þá sem ég byrjaði í fyrsta sinn að skynja óvild, í minn garð, frá heilum fjölmiðli. Það var mitt gamla blað Morgunblaðið sem fór hamförum í andúð sinni á mér og daglega birtust greinar sem voru persónulegar árásir á mig og fór sjálfur ritstjórinn þar fremstur í flokki. Ég þarf varla að útskýra það fyrir neinum,“
ritar Jón og bætir við að þessar aðdróttanir hafi hætt að mestu eftir að hann hvarf úr pólitík og fór að sinna skapandi störfum.
Jón gaf út bókina Útlaginn haustið 2015 og um svipað leyti tók hann við starfi ritstjóra innlendrar dagskrárgerðar hjá 365, og seinna við starfi dagskrárstjóra Stöðvar 2. Í Útlaganum lýsti Jón meðal annars grófu ofbeldi sem átti að hafa átt sér stað á Núpi og olli það miklu fjaðrafoki á meðal kennara skólans, sem Stundin ræddi við.
„Uppúr útgáfu bókarinnar fór ég að skynja mikla óvild í minn garð frá fjölmiðlinum Stundin. Daglega var umfjöllun um bókina mína og fannst mér hún óvægin, ósanngjörn og lituð af andúð. Mér fannst það markmið fjölmiðilsins að reyna að koma á mig höggi með öllum ráðum og því gert skóna að ég væri lygari. Ég veit ekki afhverju það var.Kannski útaf pólitískum afskiptum mínum, kannski vegna efnistaka í bókinni og kannski vegna vinnu minnar hjá 365 og kannski var það smá útaf þessu öllu.“
Jón segir óvægna umfjöllun Stundarinnar ekki hafa verið vegna þess að einstakir blaðamenn hafi verið á móti honum, heldur hafi það verið ritstjórnarleg stefna miðilsins að taka á honum bæði samfellt og skipulega, og meiða hann með dylgjum.
„Þetta kom mjög illa við mig og mér sárnaði þetta mikið. Mér fannst einhvern veginn sárara að vera sleginn úr þessari áttinni en hinni sem ég átti meira von á.“
Jón komst í fréttirnar fyrr í mánuðinum vegna myndlistarverks sem hann tjáði sig um að hafa fengið að gjöf frá hinum stórfræga götulistamanni Banksy, á meðan hann var borgarstjóri Reykjavíkur. Strangar reglur gilda um gjafir til kjörinna fulltrúa og hefur Jón því sætt töluverðri gagnrýni vegna málsins.
Hann gagnrýnir fréttaflutning Fréttablaðsins, Vísis og Morgunblaðins af málinu og segir miðlana þrjá hafa tekið höndum saman og „fabrikerað“ fréttir um hinn meinta listaverkaþjófnað.
„Og sem fyrr er enginn málefnalegur fótur fyrir ásökunum heldur eru þær aðallega dylgjur um að ég sé bjáni, þjófur og lygari. Sem ég er ekki,“
ritar Jón og bætir við:
„Og þar er svo augljóslega ekki markmiðið að varpa ljósi á eða skýra neitt heldur flækja og umvefja myrkri. Fjölmiðlarnir hafa svo sjálfir séð um að útskýra eigin mistök fyrir sjálfum sér og hafa nú alveg fyrirgefið sjálfum sér.“
Jón segist skilja að hann sé ekki allra og eflaust séu einhverjir þarna úti sem hugsi honum þegjandi þörfina. Það sé þó ekki gott að fjölmiðlar geti beitt sér gegn saklausum einstaklingum.
„Ég get verið afgerandi persóna, ég hef komið víða við í lífinu og gert hluti sem hafa haft áhrif á annað fólk og þeirra líf. Ég snéri stjórnmálum á Íslandi næstum á hvolf og sumir eru ennþá að jafna sig á því. Ég hef sýnt að ég get bæði fætt og drepið stjórnmálahreyfingar. Þótt ég vilji trúa að þær æfingar mínar hafi verið að mestu til góðs þá er ekki víst að allir séu sammála því. Ég skil það. En ég skil ekki þörfina fyrir að gera mér upp eitthvað sem ég er ekki.“