Tveir starfsmenn PCC á Bakka við Húsavík slógust í húsakynnum fyrirtækisins í gær. Voru þeir svo illa leiknir eftir átökin að þeir voru fluttir með tveimur sjúkrabílum á Sjúkrahús Akureyrar. Báðir voru handteknir eftir aðhlynningu á sjúkrahúsinu og eru þeir grunaðir um hættulega líkamsárás hvor á annan.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Lögreglunni á Norðurlandi Eystra. Þar segir einnig frá annarri líkasmárás sem átti sér stað við útibú Arion banka á Geislagötu á Akureyri. Þar var hnífi beitt í átökum tveggja manna. „Vitni urðu að atburðinum og kölluðu til lögreglu. Gerandinn yfirgaf vettvang áður en lögreglan kom, en var handtekinn skömmu síðar. Þolandi árásarinnar var fluttur á Sjúkrahús Akureyrar þar sem hann fór í aðgerð í gærkvöldi. Hann er ekki talinn í lífshættu, en málið er rannsakað sem tilraun til manndráps þar sem verknaðaraðferðin sem beitt var gefur tilefni til þess,“ segir í tilkynningunni.