„Þetta minnir helst á mafíuna í Chicago,“ segir Runólfur Ágústsson, verkefnastjóri hjá Fluglestinni þróunarfélagi og er mjög harðorður í garð forystu Sjómannafélags Íslands í kjölfar þess að Heiðveig María Einarsdóttir var rekin úr félaginu. Heiðveig er frambjóðandi til formanns félagsins en einsdæmi er að formannsframbjóðanda í stéttarfélagi sé vikið úr félaginu. Rætt var um málið í Silfrinu á RÚV. Runólfur bendir á að skylduaðild sé að stéttarfélögum og það sé fráleitt að vísa félagsmanni úr stéttarfélagi sem hann þurfi að vera í. Þá benti Runólfur á að í 50 manna trúnaðarráði Sjómannafélagsins væri ekki ein einasta kona. Þó færi konum fjölgandi í sjómannastétt. „Forystan er samansúrruð og hegðar sér með ólíkindum,“ sagði Runólfur.
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, sagði skrýtið að fólk væri rekið úr félagi án þess að fá tækifæri til að svara fyrir sig. Heiðveig hafi bara verið að kalla eftir upplýsingum um almennan rekstur og bókhald, ekkert hefði verið óeðlilegt við fyrirspurnir hennar. Sonja telur brottreksturinn mjög óeðlilegan og efast um að hann standist lög.
Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, tók í sama streng og sagði líka að aðdróttanir forystu félagsins gegn Heiðveigu eftir brottreksturinn væru dæmalausar, um að hún hafi spillt kjarasamningum með framgöngu sinni og þess háttar. „Þarna er greinilega verið að stíga á tærnar á miklu karlaveldi,“ sagði Vigdís.