„Fyrir um 20 árum var mér skutlað á Vog. Þá var ég kominn alveg í klessu, bremsukerfið var ónýtt og ég orðinn sídrykkjumaður,“ skrifar Jakob Bjarnar Grétarsson, blaðamaður á Vísir.is, í áhrifamikilli stöðufærslu á Facebook. Tilefni þessara skrifa er Ákall SÁÁ – þjóðarátak til varnar sjúkrahúsinu Vogi. Styrktartónleikar verða haldnir í Háskólabíói þann 8. nóvember en jafnframt er skorað á stjórnvöld að geta betur við SÁÁ.
Á heimasíðu átaksins segir meðal annars: „Við biðjum stjórnvöld að auka þegar í stað framlög til sjúkrahússins á Vogi um 200 milljónir til að útrýma biðlista eftir áfengis- og vímuefnameðferð. Það kostar ekki meira að leysa bráðasta vandann.“ Jafnframt er það rifjað upp að SÁÁ varð fyrir stórfelldum niðurskurði eftir hrun sem ekki hefur verið bættur upp síðan. Enn fremur hafa göngudeildir verið reknar án fjármagns frá ríkinu frá árinu 2014. Rúmpláss fyrir áfengis- og fíkniefnasjúklinga eru nú jafnmörg og voru árið 1976. Er því haldið fram að stöðnun og jafnvel afturför ríki í þessum málaflokki sem Íslendingar hafa ávallt verið framarlega í.
Áhrifamikill pistill Jakobs Bjarnar um áfengissýki hans og þá hjálp sem hann hlaut hjá SÁÁ er svohljóðandi:
„Ég hef ekki talað um þetta opinberlega fyrr. Trúi ekki á móralíseringar. Menn hafa þetta bara eins og þeim sýnist best og hver hefur sín viðmið. Ég hef ekkert á móti því að menn skvetti í sig ef þeir ráða við búsið og það veitir þeim gleði. En, þegar neysla er orðin íþyngjandi er um vandamál að ræða. Og vítahring. Fyrir um 20 árum var mér skutlað á Vog. Þá var ég kominn alveg í klessu, bremsukerfið var ónýtt og ég orðinn sídrykkjumaður. Taugakerfið farið, heima var dregið fyrir glugga og ég fór í hnút ef síminn hringdi. Hvað nú? Þegar húmaði skröltum við Bakkus svo á barina. Ég að eltast við partí sem var löngu búið en Bakkus skemmti sér hins vegar alltaf jafn vel. Best þegar lægst var á mér risið. Og það var oft bágborið ástandið. Svo fór að ég játaði mig sigraðan, þar í bjó sigur. Ég vissi það ekki þá. En fór í meðferð, fullur auðmýktar og lærði á Vogi og svo í eftirmeðferðinni ótrúlega mikið um alkóhólisma. Sem ég bý að. Ég á SÁÁ mikið að þakka. Þarna er verið að vinna þjóðþrifaverk, samfélaginu öllu til hagsbóta og ég skora á alla sem tök hafa á að leggja þessu málefni lið.“
Gunnar Smári: Nýfrjálshyggjan hefur grafið undan mannréttindabaráttu alkóhólista
Annar víðþekktur fjölmiðlamaður, Gunnar Smári Egilsson, lýsir einnig bata sínum frá alkóhólisma í öllu lengri og pólitískari pistli, sem hefst á þessum orðum:
„Akkúrat núna, um þetta leyti dags, eru 23 ár síðan ég gekk inn á Vog á svölum haustdegi og ég hef ekki drukkið síðan. Og mikið er ég þakklátur fyrir það. Ég naut mannréttindabaráttu alkanna á síðustu öld, þessa forsmáða sjúklingahóps sem barðist fyrir að fá vald yfir eigin meðferð; losna frá geðlæknunum, sem höfðu dundað sér við að dýfa ölkum í heit og köld böð, setja rafstraum í gegnum heilann á þeim eða reka prjón upp um nefið og hrærar í framheilanum. Sá sem fann upp þá lausn á alkóhólisma og öðrum geðsjúkdómum fékk Nóbelinn, eini geðlæknirinn hingað til. En alkarnir sluppu líka undan löggunni sem vildi stinga þeim í steininn og flytja á hæli upp í sveit þar sem þeir vesluðust upp við vondan aðbúnað. Áður en alkarnir fóru að berjast fyrir eigin rétti var litið á þá sem sjúkdóm í samfélaginu eins og fólk með geðraskanir, flogaveiki, fátæka, samkynhneigða og sósíalista.“
Gunnar Smári lýsir því síðan hvernig, að hans mati, nýfrjálshyggjan hefur grafið undan starfi SÁÁ og valdið því að samtökin hafa í seinni tíð ekki náð eins langt og í stefndi. Gunnar segir jafnframt á persónulegum nótum:
„Án þessarar mannréttindabaráttu væri ég líklega dauður. Þegar maður les um örlög alkóhólista á fyrri hluta síðustu aldar þá létust þeir flestir um eða fyrir fertugt.“
Gunnar segir að þjónusta við alka sé engu betri í dag en fyrir 23 árum er hann fór inn á Vog. Nýfrjálshyggjan sem hefur náð völdum í íslensku samfélagi hafi grafið undan framförum í þessum málaflokki:
„Af þessum sökum hefur ölkunum ekki tekist að þróa meðferð fyrir þá hópa sem ekki náðu auðveldlega bata með þeim aðferðum sem urðu til á grunni frelsisbaráttu alkanna á síðustu öld. Þjónusta við langt leidda alkóhólista er í dag engu betri en þegar ég gekk inn á Vog fyrir 23 árum, meðferð og stuðningur við unga neytendur hefur skánað lítillega, en í engum takt við þörf og umræðu og stuðningur við börn alkóhólista er í raun enn á frumstigi, þótt öllum sé ljóst að það sé bæði hópur sem þarf stuðning vegna áfalla og erfiðleika sem há muni honum síðar meir og að þetta sé sá hópur sem árangursríkast er að beina forvörnum að. Og svona má lengi telja; áfengisvandi á efri árum, stuðningur við fólk með geðraskanir og fíknisjúkdóma, fangar í fíknivanda, sérúrræði fyrir konur og móttaka, stuðningur eftir meðferð við sjúklinga sem sjúkdómurinn hefur grafið undan efnahagslegri stöðu, dvalarheimili fyrir langt leidda áfengissjúklinga, meðferð fyrir innflytjendur með áfengisvanda og svo framvegis. Ef Nýfrjálshyggjan hefði ekki stöðvað mannréttindabaráttuna sem reis um miðja síðustu öld hefði Vogur og starfsemin kringum hann þróast áfram og breyst. Og aukið lífsgæði þúsunda og bjargað fjölda mannslífa.“
Gunnar Smári hefur ekki sagt sitt síðasta orð í baráttunni fyrir hagsmunum fíkla því lokaorð pistils hans eru:
„Ég vona að ég haldi mér áfram edrú, einn dag í einu, til að breyta þessu.“