Um níuleytið í gærkvöld var tilkynnt til lögreglu um þjófnað á jakka frá gesti á veitingahúsi, erlendum ferðamanna. Átti þetta sér stað á veitingahúsi í miðbænum. Laust fyrir klukkan hálftvö tilkynnir síðan starfsfólk að meintur þjófur sé kominn aftur á veitingahúsið. Var hann handtekinn skömmu síðar. Reyndist hann vera með umræddan jakka í fórum sínum en munir voru horfnir úr jakkanum. Maðurinn var vistaður fyrir rannsókn málsins í fangageymslu lögreglu.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglu. Þar segir einnig frá því að laust eftir klukkan þrjú í nótt leitaði maður sér aðstoðar á Slysadeild eftir tilefnislausa líkamsárás í Austurstræti. Maðurinn er meðal annars með brotna tönn en ekki er vitað um gerendur.
Klukkan ellefu í gærkvöld tilkynnti ungur maður líkamsárás í Hafnarfirði. Maðurinn var sleginn ítrekað í andlitið og brotin rúða í bíl hans. Árásarþoli þekkti gerendur.
Allmörg tilvik voru í nótt um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna.