„Ég vil taka fram að þetta er ákvörðun Birgis sjálf og við teljum hana eðlilega í ljósi aðstæðna,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. Birgir S. Bjarnason, fyrrverandi formaður Félags atvinnurekenda, hefur verið ákærður af hálfu Héraðssaksóknara fyrir að standa ekki skil á vörslusköttum upp á tæpar 25 milljónir króna. Varðar þetta rekstur fyrirtækis hans, Íslensku umboðssölunnar, en Birgir skilaði ekki staðgreiðslu launa starfsmanna fyrirtækisins sem hann hélt eftir, yfir um tveggja og hálfs árs tímabil. Greint frá frá ákærunni í frétt DV í gær.
„Birgir hefur vikið sæti og sagt sig frá störfum í stjórn FA á meðan þetta mál er fyrir dómsólum,“ segir Ólafur. Birgir er þó formlega í stjórn ennþá en víkur sæti tímabundið.
„Ég vil ekkert tjá mig um þetta mál, ég tjái mig bara í réttarsalnum og þá kemur þetta allt í ljós,“ sagði Birgir í stuttu samtali við DV í gær. Þar var ranglega greint frá því að Birgir hafi verið framkvæmdastjóri félagsins áður en hann tók við formennsku og er beðist velvirðingar á því. Birgir var formaður FA frá 2013 til 2017. Eftir það hefur hann setið í stjórn félagsins en hefur núna vikið sæti vegna þessa dómsmáls.
Birgir situr hins vegar í stjórn Símans.