Sérsveit lögreglunnar handtók par í morgun vegna vopnaburðar við Stangarhyl í Ártúnsholti. Maðurinn hafði áður hleypt af einu skoti úr byssu sinni. Í tilkynningu frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir:
„Karlmaður og kona eru í haldi Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í þágu rannsóknar hennar á vopnaburði í Stangarhyl í Ártúnsholti í Reykjavík klukkan rúmlega hálfellefu í morgun. Þá barst tilkynning um ógnandi mann með skotvopn á fyrrnefndum stað, en vitni fullyrða að einu skoti hafi verið hleypt af. Ekki er talið að vopninu hafi þá verið beint að fólki. Með fylgdi lýsing á manni og konu, meintum gerendum, og ökutæki sem þau voru á. Fólkið var svo handtekið annars staðar í borginni, eða í Skipholti, á tólfta tímanum og bíður það nú yfirheyrslu. Við handtökurnar naut Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu aðstoðar sérsveitar ríkislögreglustjóra.“
Bíll sem parið var á var haldlagt sem og vopnið en það reyndist vera loftbyssa. Parið er í haldi lögreglu.