Umferðaróhapp var á gatnamótum Kleppsvegar og Dalbrautar um kvöldmatarleytið í gær. Þrír bílar lentu í árekstrinum og eru tveir bílar ekki ökuhæfir eftir óhappið. Fjórar manneskjur leituðu aðstoðar á Slysadeild eftir atvikið og er ekki vitað um alvarleika meiðsla þeirra.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar. Það segir einnig lauslega frá því að líkamsárás hafi átt sér stað við veitingahús í miðbæ Reykjavíkur laust fyrir klukkan tvö í nótt. Urðu átök milli dyravarða og gesta.
Klukkan tvö í nótt var ofurölvi maður handtekinn þar sem hann var til vandræða á sjúkrastofnun. Maðurinn var vistaður sökum ástands síns í fangageymslu lögreglu.
Klukkan hálfþrjú í nótt var tilkynnt um mann sem öryggisverðir héldu föstum tökum í miðbænum. Var maðurinn grunaður um eignaspjöll, þ.e. að hafa brotið rúðu í bíl.
Á fimmta tímanum í nótt var ung kona í annarlegu ástandi handtekin í miðbænum. Konan er grunuð um vörslu fíkniefna, þjófnað og brot á vopnalögum. Konan var vistuð fyrir rannsókn málsins í fangageymslu lögreglu.