Tvö fjögurra ára börn náðu að strjúka frá leikskólanum Naustatjörn á Akureyri og voru týnd í rúmlega hálfa klukkustund. Atvikið átti sér stað síðastliðin mánudag.
Fram kemur á vef RÚV að sendur hafi verið tölvupóstur á foreldra barna í tveimur af sex deildum leikskólans og þeim gert viðvart um atvikið. Fram kemur að börnin hafi látið sig hverfa eftir að þau voru beðin um að ganga betur frá fötum sínum eftir útiveru.
Í samtali við RÚV segir Jónína Hauksdóttir skólastjóri Naustaskóla að leikskólinn Naustatjörn sé starfræktur í tveimur byggingum. Börnin tvö sem um ræðir eru á deild sem starfrækt er í húsnæði Naustaskóla en þar er aðgengi auðvelt og þarf einungis að ýta á einn takka til að komast út.
Fram kemur að strax hafi hafist mikil leit og haft samband við lögreglu. Börnin fundust síðan á heimili annars þeirra eftir að hafa verið týnd í hálfa klukkustund. Þá segir Jónína að atvikið sé litið alvarlegum augum og hafi verklagsreglum verið breytt þannig að börn séu ávallt í fylgd kennara þegar þau fara fram í forstofu.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem barn nær að strjúka frá Naustatjörn en í ágúst síðastliðnum greindi Fréttablaðið frá því að tæplega þriggja ára drengur hefði sloppið út um opið hlið á leikskólanum. Var drengurinn kominn langleiðina að heimili sínu þegar vegfarandi kom að honum grátandi og hræddum.