„Það veit svo sem enginn hvað nákvæmlega gerðist þarna,“ sagði Sigríður Lárusdóttir dýralæknir í samtali við Morgunblaðið í dag.
Blaðið greinir frá því að þrettán kindur, níu ær og fjögur lömb, hefðu fundist dauð í gömlu fjárhúsi á eyðibýlinu Eyri í Mjóafirði í Súðavíkurhreppi fyrir skemmstu. Talið er að kindurnar hafi rambað inn í fjárhúsið fyrir tilviljun í sumar. Eitthvað varð til þess að inngangurinn í húsið hrundi og urðu kindurnar innlyksa í húsinu. „Þau hafa drepist úr þorsta,“ segir Sigríður Gísladóttir, dýralæknir á Ísafirði.
Hún var kölluð á vettvang og segir hún að koman hafi verið sérlega ljót. Ljóst sé að kindurnar hafi hlotið ömurlegan og hræðilegan dauðdaga.
Jörðin sem um ræðir er í ríkiseigu og hefur ekki verið búið á henni í fleiri ár. Málið var tekið upp á fundi sveitarstjórnar Súðavíkurhrepps í vikunni og vill Elsa Borgarsdóttir, sem tók málið upp á fundinum, að kannað verði hvort eigendur eða leigjendur eyðibýla beri ábyrgð á húsakosti á jörðunum. Ef ekki þá þurfi að setja reglur þar að lútandi til að atvik eins og þetta endurtaki sig ekki.
Í bókun Elsu kemur fram að féð hafi líklega drepist 10. til 20. júlí efti tekið er mið af rotnun í augum og stærð lambshræa. „Samkvæmt Sigríði dýralækni var aðkoman vægast sagt sláandi og málið eitt það versta sem hún hafi komið að á sínum starfsferli,“ segir í bókuninni.